Fokhelda húsið

 

Hér á eftir fara hugmyndir að spurningum og hugsanlegum svörum sem hægt er að styðjast við þegar textinn er lesinn.

 • Hvað er höfundurinn að tala um þegar hann segir að kastalinn sé fokhelt hús? Af hverju segir hann að kastalar geti verið hugarburður? Getur verið að einhverjir leiki sér í húsinu og kalli það kastala? Maður getur líka smíðað sér kastala í huganum.
 • Hvað er höfundurinn að reyna að segja okkur þegar hann segir að byggingastíl kastala hafi hnignað síðan á dögum Ívars hlújárns? Hver var Ívar hlújárn? Útskýrir höfundur það nógu vel? Getur verið að hann sé að meina að honum hafi fundist t.d. gluggaskreytingarnar flottari á þeim tímum. Nú eru engar styttur á venjulegum húsum og gluggarnir eru ferkantaðir.
 • Hvað er höfundur að meina þegar hann segir að þeir taki hinni postulegu kveðju myrkursins? Getur verið að hann sé að vísa til þess þegar prestur biður söfnuð sinn að taka hinni postulegu blessun. Þá standa allir upp til að meðtaka guðs orð. Þögnin og myrkrið bjóða þá velkomna í fokhelda húsið.
 • Hvað er höfundur að meina með því að kynfæri þess sem segir söguna séu hlutlaus? Af hverju líkir hann þeim við Sviss? Getur verið að hann sé að vísa til hlutleysis Sviss í heimstyrjöldunum og sé að meina að drengurinn sé enn það ungur að það sjáist varla hvort hann sé karlkyns eða kvenkyns?
 • Hvað á höfundur við þegar hann segir að dimman sé doppótt? Getur verið að sögumaður sé lengi að venjast myrkrinu og því sjái hann doppur?
 • Hvernig tengist feginleiki strákanna yfir því að enginn væri að koma, þeim sögum sem þeir hafa heyrt um húseigendur? Getur verið að þeir séu hræddir við allt það sem húseigendur gætu gert þeim og trúi sögunum sem sagðar hafa verið? Skyldu þær vera sannar?
 • Hvers vegna lætur höfundur sögumann tala til Óla (hann segir: „...þú Óli...“)? Getur verið að hann sé að skrifa niður minningar sínar og vilji gera þær persónulegri með því að skrifa þær til besta vinar síns?
 • Segir höfundur okkur hvað strákarnir eru að fara að gera þarna inni í fokhelda húsinu? Getur verið að þeir séu aðallega að fara þarna inn til þess að fá frið til þess að reykja?
 • Hvers vegna skrifar höfundur orðin eins og Jón segir þau? Getur verið að hann sé að leggja áherslu á hvað Jón sé óskýrmæltur? Hvaða áhrif hefur það á söguna?
 • Útskýrir höfundur vel hvað hann á við þegar hann segir að miðaldra blaðamenn í fræðslumyndböndum hjá KFUM fái bara krabbamein? Getur verið að það séu einu tilfellin sem strákarnir vita um, það sem þeir hafa séð í fræðslumyndböndum?
 • Hvað á höfundur við þegar hann segir að þeir séu allir hræddir við lyktina? Getur verið að þeir verði skammaðir ef það finnst reykingalykt af þeim?
 • Hvað á höfundur við með því að segja að það gæti verið gaman af einhver kemur? Passar þetta við það sem höfundur hefur áður sagt? Áður vildi sögumaður ekki að neinn kæmi. Gæti hann verið að meina að ef hann nær að koma sér í felur sé gaman að fylgjast með fólkinu sem mun flytja í húsin seinna?
 • Hvað er höfundurinn að tala um þegar hann talar um bíóprógramm með bogart? Gæti hann verið að tala um leikarann Bogart og bíóprógramm sé einhverskonar blað sem menn fengu um myndirnar sem menn sáu í bíói?
 • Hvað á höfundur við með því að segja að sögumanni hafi liðið eins og veröldin væri stranglega bönnuð bíómynd? Gæti verið að fullorðna fólkið hafi verið að gera eitthvað sem litlir strákar áttu ekki að verða vitni að?
 • Hvað er höfundur að meina þegar hann segir að strákarnir þekki nýrisin húsin betur en fólkið sem á eftir að búa í þeim? Gæti verið að hann væri að meina að strákarnir hafi eytt svo miklum tíma inni í húsunum á byggingatímanum og jafnvel á stöðum þar sem fólkið mun hafa geymslur og þess háttar?
 • Hvað á höfundur við þegar hann líkir fokhelda húsinu við Drangey? Gæti verið að hann sé að vísa til sögunnar um Gretti sem bjó í Drangey?

 

Síðast breytt: mivikudagur, 14 september 2011, 08:45 eh