Þúsund orða virði

eftir Björn Braga Arnarsson

úr bókinni Smásagnasmáræði

 

Ég velti því fyrir mér hvort Júlía myndi einhvern tímann fyrirgefa mér, ef hún fengi að vita að þetta var allt mér að kenna. Ég get ekki fyrirgefið mér sjálfur. Að minnsta kosti hefur það ekki tekist fram að þessu, þótt það sé liðið meira en hálft ár. Ég sit inni í herbergi og stari á tölvuskjáinn. Þetta er langt frá því að vera fyrsta bréfið sem ég skrifa Júlíu, en ekkert bréfanna hefur ratað lengra en í ruslafötuna.

 

Fyrirgefðu, Júlía, ég veit ekki hvað ég var að hugsa.

 

Þetta byrjaði allt eftir leikfimitíma í gamla íþróttahúsinu. Ég var að bíða eftir Jóni Páli vini mínum, sem var inni á skrifstofu hjá íþróttakennaranum. Eflaust var hann að suða um að fá mætingu fyrir tíma sem hann hafði aldrei látið sjá sig í. Hann var ekki alveg sömu skoðunar og ég, að það væri einfaldara að mæta bara í tímana. Síðustu stelpurnar tíndust út úr kvennaklefanum og spurðu hvort ég kæmi ekki með á árshátíðina í næstu viku. „Að sjálfsögðu,“ svaraði ég um hæl, enda var ég formaður nemendafélagsins og hefði ekki getað sleppt því að mæta þótt ég vildi.

Ég rölti annars hugar að kvennaklefanum og tók eftir því að hurðinni hafði aðeins verið lokað til hálfs, en ég hélt að enginn væri þar inni. Að segja að mér hafi brugðið, þegar ég sá Júlíu bekkjarsystur mína kviknakta, er vægt til orða tekið. Hún var ein eftir í klefanum og hafði hvorki tekið eftir því að hurðin var opin né að ég stóð fyrir utan hana. Júlía var í mínum huga langsætasta stelpan í skólanum og þótt ég vildi ekki játa það fyrir mér, eða nokkrum öðrum, þá var ég bálskotinn í henni. Við höfðum verið saman í bekk í næstum tvö ár og vorum ágætis vinir.

Seinna meir átti ég eftir að óska þess margsinnis að ég hefði fylgt mínu fyrsta hugboði, sem var að ganga einfaldlega í burtu og láta sem ekkert væri. En þess í stað fór ég í vasann og tók upp símann sem ég hafði fengið frá afa í fermingargjöf árið áður. Án þess að Júlía yrði nokkurs vör tók ég þrjár myndir af henni á símann og hraðaði mér burt.

 

Ég veit að ég átti aldrei að taka þessar myndir. Þetta er það ömurlegasta sem ég hef gert og ég skil ekki hvað kom yfir mig. Ég hefði líka átt að eyða myndunum strax. En ég sýndi Jóni Páli þær og hann sendi einhverjum strákum þær. Ég veit að þetta er allt saman mér að kenna.

 

Fyrsti tíminn morguninn eftir var tvöfaldur tölvutími, eins og hvern einasta föstudag þennan vetur. Ég var langt frá því að vera sá eini sem furðaði sig á því að Georg tölvukennari skyldi kenna tölvutímana, enda var hann svo gamall að menn þrættu um hvort hann kynni yfir höfuð sjálfur að senda tölvupóst. Ég var kominn langleiðina inn í draumalandið undir svæfandi malinu í Pétri, þegar ég var skyndilega vakinn upp með látum.

„Júlía, ert þetta þú?“ kallaði Rikki, bekkjarbróðir okkar hlæjandi upp yfir stofuna. Ég hafði aldrei kunnað vel við Rikka, en þrátt fyrir það reyndi ég yfirleitt að koma sæmilega vel fram við hann, því Rikki var náungi sem fæstir vildu lenda upp á kant við. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég leit á tölvuskjáinn hans og við blasti ein af myndunum sem ég hafði tekið í íþróttahúsinu daginn áður.

Júlía stóð upp skelfingu lostin og svipurinn á andlitinu á henni var líkastur því að hún hefði séð djöfulinn. „Hvað er þetta?“ spurði hún lágum rómi og gekk að tölvunni, sem Rikki sat við. Það var óþarfi að svara spurningunni. Allur bekkurinn sá að þetta var nektarmynd af Júlíu. Séð úr fjarlægð leit myndin út eins og hún hefði komið af svæsinni klámsíðu á Netinu. Það var eitthvað svívirðilega rangt við að sjá að stelpan á myndinni hafði andlit Júlíu.

Rikki smellti á músina og önnur mynd birtist og að lokum sú þriðja. Georg tölvukennari spurði hvað væri á seyði, en enginn veitti honum athygli. Allra augu voru á Júlíu og myndunum af henni. Ég sat límdur við stólinn minn og hjartað í mér hamaðist á meðan ég fylgdist með atburðarásinni. „Lokaðu þessu,“ öskraði Júlía á Rikka og var byrjuð að gráta. En viðbrögð hennar voru Rikka greinilega að skapi og hann sagði kvikindislega: „Bíddu, þarft þú ekki að segja okkur eitthvað? Ertu byrjuð að leika í klámmyndum?“ Júlía svaraði honum ekki, heldur hljóp út úr stofunni og skildi úlpuna sína og skólatöskuna eftir. Ég leit á Jón Pál, sem forðaðist að mæta augnaráði mínu.

Áður en allur skóladagurinn var úti virtist allur skólinn hafa séð myndirnar. Í hverju horni var rætt um Júlíu og myndirnar fóru um eins og eldur í sinu. Júlía sjálf sást hins vegar hvergi. Hún hafði líklega farið heim eftir uppákomuna í tölvutímanum. Ég hafði svipast um eftir henni án árangurs, þótt ég hefði ekki hugmynd um hvað ég ætti að segja við hana. Fislétti síminn minn virkaði eins og 10 kílóa grjóthnullungur í vasanaum og mér fannst eins og allir vissu að ég tók myndirnar.

Það var þó fjarri lagi. Samstundis höfðu sprottið upp sögur um uppruna myndanna og í engri þeirra var ég á meðal aðalpersóna. Einhverjir héldu því fram að Júlía hefði látið taka myndirnar af sér í von um að slá í gegn sem nektarfyrirsæta. Aðrir fullyrtu að hún hefði tekið þær í þeirri viðleitni að táldraga strák sem hún átti að vera skotin í. Enginn nema Jón Páll hafði hugmynd um aðkomu mína og ég vissi að hann færi ekki að segja neinum, af ótta við að vera blandað inn í málið líka.

Við Jón Páll gengum saman heim úr skólanum, eins og við gerðum ævinlega.  Leiðin hafði hins vegar aldrei verið eins löng. „Hvernig datt þér í hug að setja myndirnar á netið? Ertu eitthvað ruglaður?“ sagði ég við hann í hvössum tón.

„Ætlarðu að kenna mér um þetta? Það varst þú, sem tókst myndirnar. Ég sendi þær bara á tvo stráka,“ svaraði Jón Páll og var hvass á móti. Ég vissi að það þýddi lítið að rökræða þetta. Skaðinn var skeður og ég gat ekki kennt neinum öðrum um en sjálfum mér. Við þögðum það sem eftir var leiðarinnar.

Ég var alltaf svo skotinn í þér og ég hata mig fyrir að hafa gert þér eitthvað svona ömurlegt og ógeðslegt. Mig langaði svo mikið til þess að bæta fyrir þetta, þó að ég vissi að það væri ekki hægt.

 

Júlía mætti í skólann á mánudeginum. Hún sat fremst í skólastofunni og starði fram fyrir sig. Ég fylgdist með henni og vonaði að hún liti í áttina til mín, en hún horfði ekki í augun á nokkrum  manni. Ég komst ekki hjá því að heyra pískrið um hana í kennslustofunni. Enn vonlausara hafði verið að láta splunkunýtt veggjakrotið við aðaldyrnar á skólabyggingunni fara fram hjá sér. „EF ÞÚ VILT RÍÐA HRINGDU ÞÁ Í JÚLÍU Í 9. AK,“ hafði verið úðað þar með stríðsletri, ásamt símanúmerinu hennar.

Sem formaður nemendafélagsins var ég einn af skipuleggjendum árshátíðarinnar sem átti að halda á fimmtudagskvöldið. Ég átti þó erfitt með að einbeita mér að því hlutverki og gat ekki hugsað um neitt annað en Júlíu. Hún mætti í skólann alla vikuna, en þegar við vorum ekki í tímum læddist hún með veggjum, enda var glápt á hana á göngum skólans eins og hún kæmi af annarri plánetu. Á hverjum degi langaði mig að tala við hana og ég hugsaði um hvernig ég myndi játa þetta allt fyrir henni, en fékk mig ekki til þess.

Árshátíðin rann upp og mættu bæði kennarar og nemendur í sínu fínasta pússi, enda var árshátíðin jafnan eitt skemmtilegasta kvöld skólaársins. Flutt voru skemmtiatriði, veitt voru verðlaun í hinum ýmsu flokkum og í bakgrunni á sviðinu var breiðtjald með myndum úr félagslífinu. Sjálfur var ég kosinn „herra skólans“ af samnemendum mínum og var kallaður upp á svið til að taka við verðlaunum fyrir það. Verðlaun sem enginn þarna inni átti minna skilið en ég.

Rikki hafði krafist þess að koma fram og segja nokkur orð og enginn þorði að andmæla því. Hann sagði nokkra misgáfulega brandara sem uppskáru takmarkaðan hlátur. Ég sat við borð skammt frá sviðinu og beið eftir að hann lyki sér af. „Áður en ég hætti langar mig að gera eitt sem gleymdist alveg hérna áðan. Það á eftir að veita ein verðlaun, sem eru eiginlega mikilvægustu verðlaun kvöldsins,“ sagði Rikki og fólkið í salnum sperrti eyrun. Rikki þagnaði í nokkrar sekúndur og gekk að tölvu sem stóð við sviðið. Svo æpti hann í hljóðnemann eins og hann væri að kynna nýjan Óskarsverðlaunahafa: „Ég er að sjálfsögðu að tala um verðlaunin fyrir mestu hóru skólans og þau hlýtur Júlía í 9. AK.“ Um leið birtist ein af nektarmyndunum af Júlíu á breiðtjaldinu.

Mikil læti brutust út í salnum og einhverjir hlógu og fögnuðu. Kennararnir, sem höfðu ekki vitað af myndunum, vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið og hreinlega göptu af hneykslun. Þessi stund er enn þá í hálfgerðri móðu, enda gerðist allt á nokkrum sekúndum, en ég man að ég fylltist reiðitilfinningu sem ég hef aldrei fundið áður. Það var eins og það syði í mér blóðið. Ég tók undir mig stökk og hljóp að Rikka, sem stóð við tölvuna, og kýldi hann eins fast og ég gat í andlitið. Rikki féll aftur fyrir sig á tölvuna og bæði hann og tölvan hrundu í gólfið með tilheyrandi látum. Rikki hélt um nefið á sér og var alblóðugur í framan. Ég hafði sjálfur laskað á mér höndina við að kýla hann, en mér var svo mikið niðri fyrir að ég fann ekki fyrir sársaukanum. Allur skólinn starði orðlaus á okkur og reyndi að meðtaka það sem hafði gerst, sem betur fer hurfu myndirnar af tjaldinu þegar tölvan hrundi í gólfið. Rikki klöngraðist á fætur en áður en hann náði að svara fyrir sig höfðu tveir kennarar gengið á milli okkar.

Linda skólastjóri kom upp á svið og lét kveikja aftur á tónlistinni og bað einhvern kennara að fylgja Rikka burt. Sjálf fylgdi hún mér baksviðs og sagði mér að róa mig niður. Það fyrsta sem ég sá þegar þangað var komið var Júlía sem sat þar grátandi. Ég hafði ekkert séð hana fyrr um kvöldið og hélt raunar að hún hefði ekki mætt. „Er ekki best að ég keyri þig heim, Júlía?“ spurði Linda hana vingjarnlega og Júlía kinkaði kolli. „Ég ætla að athuga hvernig ástandið er frammi, gefðu mér fimm mínútur,“ sagði Linda svo og skildi mig og Júlíu ein eftir á meðan.

Júlía stóð upp. „Takk fyrir þetta,“ sagði hún lágum rómi og brosti vandræðalega til mín í gegnum tárin. Hún hafði aldrei verið eins falleg. Í rauðum kjól og greinilega búin að hafa mikið fyrir því að gera sig fína. Eins og leikkona í gamalli bíómynd. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja. Mig sveið að innan við að heyra Júlíu þakka mér. Ég stamaði þó upp úr mér að það væri ekkert að þakka og bætti við: „Rikki er náttúrulega mesta fífl í heimi. Það hefði hver sem er gert þetta.“

„Ekki fyrir mig,“ sagði hún og bætti við kaldhæðnislega: „Ekki fyrir mestu hóru skólans.“

„Ekki segja þetta. Ekki láta þetta hafa áhrif á þig,“ sagði ég.

„Það er auðvelt fyrir þig að segja svona. Það var ekki verið að sýna píkumyndir af þér á tjaldi fyrir framan allan skólann,“ sagði Júlía ákveðin.

„Það er reyndar rétt,“ svaraði ég og vildi að ég hefði sagt eitthvað gáfulegra.

„Fyrirgefðu,“ sagði hún strax. „Ég á ekki að vera að æsa mig við þig. Ég kann að meta að þú skulir hafa komið til mín,“ bætti hún við.

Ég horfði á Júlíu og óskaði þess að ég gæti tekið allt til baka. Mig langaði líka að játa allt fyrir henni, þótt það þýddi að hún myndi aldrei tala við mig framar. En mig skorti kjarkinn. Þess í stað sagði ég: „Þú ert engin hóra og það vita allir að það var einhver skíthæll sem tók þessar myndir af þér.“ Ég meinti hvert orð innilega.

„Ég vildi að allir væru svona frábærir eins og þú,“ sagði Júlía og faðmaði mig hikandi. Ég faðmaði hana á móti og óskaði þess að kringumstæðurnar væru allt aðrar. Júlía þrýsti sér upp að mér og horfði djúpt í augun á mér. Það var eitthvað óútskýranlega ævintýralegt við þessa stund. Hún lokaði augunum og bjó sig undir að kyssa mig en ósjálfrátt færði ég mig undan.

Það kom fát á Júlíu. „Fyrirgefðu, ég veit ekki hvað ég var að hugsa,“ sagði hún og roðnaði.

„Nei, hérna...“ Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Ég fékk mig ekki til að kyssa hana, þótt mig langaði ekkert meira. Ef Júlía vissi hvað ég hafði gert hefði hún fyrirlitið mig og aldrei nokkurn tímann viljað kyssa mig.

„Ég get greinilega ekki hætt að gera mig að fífli,“ sagði hún og gekk hratt út úr herberginu, áður en ég náði að segja nokkuð.

 

Þú hefur ekki hugmynd um hvað mig langaði mikið til að kyssa þig á árshátíðinni. Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þig síðan.

 

Daginn eftir var ég kallaður á skrifstofu Lindu skólastjóra, til þess að ræða atvikið á árshátíðinni.

„Þú veist að ofbeldi er ekki liðið í þessum skóla. En þetta voru sannarlega sérstakar aðstæður í gærkvöldi. Þetta var ömurlegur hrekkur hjá Ríkharði og þú sýndir hugrekki að bregðast svona við,“ sagði Linda. Ég átti erfitt með að hlusta á hana hrósa mér og svaraði engu en hún hélt áfram. „Þessar myndir sem Ríkharður birti á tjaldinu. Veist þú eitthvað hvaðan þær koma?“

„Það var ég sem tók þær,“ hugsaði ég, en hafði ekki kjark til að segja það upphátt. Þess í stað sagði ég: „Nei, því miður.“ Síðan bætti ég við: „En ég vona að auminginn sem gerði það finnist.“

Eins og Linda hafi ekki verið nógu ánægð með mig fyrir, kom velþóknunarsvipur á hana við að heyra þessi orð mín. „Það er gaman að sjá hvað þú hefur ríka réttlætiskennd. Ég var á fundi með foreldrum Júlíu í morgun og þau voru að spyrja um þig, strákinn sem hjálpaði henni. Eins og gefur að skilja hefur þetta mál líka verið erfitt fyrir þau, rétt eins og Júlíu,“ sagði Linda.

Hún þagnaði um stund, eins og til að ákveða hvort hún ætti að halda áfram að reyna að drepa mig úr samviskubiti, en sagði svo alvarleg: „Þér að segja, þá ætlar Júlía að ljúka skólaárinu utan skóla og hún mun svo fara í annan skóla á næsta ári.“ Ég horfði á Lindu, sem hélt áfram að tala, en gat ekki hlustað á meira. Hún sagði eitthvað um að það væri sorglegt að einhverjir óprúttnir einstaklingar geti eyðilegt svona mikið fyrir öðrum nemanda. Ég þurfti að berjast við að öskra ekki upphátt og fara hreinlega að gráta fyrir framan hana. Loksins leyfði hún mér að fara.

Ég gekk hratt út úr skólabyggingunni og hljóp svo af stað. Ég hljóp eins hratt og ég gat, þar til ég kom að gamla íþróttahúsinu. Mér fannst ég vera að springa að innan. Ég tók símann minn upp úr vasanum og kastaði honum eins fast og ég gat í steinvegginn á íþróttahúsinu. Ég starði á jörðina. Síminn lá þar mölbrotinn og ég fann hvernig tárin streymdu niður vangana. En mér leið ekkert betur. Það var ekki síminn sem ég þurfti að losa mig við.

 

Ég tók myndirnar Júlía. Fyrirgefðu. Fyrirgefðu að ég skyldi ekki segja þér það fyrr. Fyrirgefðu að ég skyldi taka þessar helvítis myndir. Ég myndi gefa hvað sem er fyrir að ekkert af þessu hefði gerst. Ég skil það vel ef þú getur aldrei fyrirgefið mér.

 

Ég les bréfið yfir í tölvunni. Svo loka ég skjalinu, án þess að vista það.

 

 

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:34 eh