Listin að sleppa við sturtuna

Úr bókinni 10.10.10. Atvinnumannasaga Loga Geirssonar

eftir Henry Birgi Gunnarsson

 

Yngri flokkarnir voru mér ekkert sérstaklega auðveldir. Ég var c- liðs maður í sjötta flokki en á fyrra árinu í fimmta flokki sprakk ég út og varð bestur. Svo kom skeið þar sem ég lenti á eftir öllum. Þeir voru allir orðnir 20 sentímetrum hærri en ég og komnir með hár á punginn – ég var nauðasköllóttur að neðan.  Það var mjög erfitt að horfa upp á alla verða kynþroska langt á undan mér.

Þessi ár, þegar ég var 13-15 ára voru mér svo erfið að þegar ég varð 15 ára hætti ég í eitt og hálft ár í handbolta til þess að þyngja mig. Það var ekki erfið ákvörðun og ég vissi að hún var rétt. Mér gekk illa og eldri strákarnir stríddu mér út í eitt.

Ég treysti mér til að mynda ekki til þess að fara í sturtu með hinum, hvort sem það var eftir æfingar eða í leikfimi í skólanum og tókst að komast hjá því öll unglingsárin, sem er líklega met. Ég var klókur og laumaðist stundum í sturtu í þjálfaraklefanum þar sem pabbi var.

Ég efaðist um hvort það væri bara í lagi með mig yfir höfuð. Þetta hafði áhrif á allt hjá mér og til að mynda samskipti við hitt kynið, ég var aldrei með neinni stelpu á unglingsárunum. Ég er örugglega ekki sá eini á Íslandi sem hefur lent í þessum efa með sjálfan sig – ótta við allt og alla ef útlitið er ekki eins og það ætti að vera. Ef ég vissi þá það sem ég veit núna hefði ég eðlilega tekið öðruvísi á málum. Manni á að þykja vænt um sjálfan sig og foreldrar eiga að vera duglegir að hrósa börnunum sínum til að styrkja þau og byggja upp sjálfsmynd þeirra.

Einu sinni var ég staddur í keppnisferðalagi erlendis með FH og hafði ekki farið í sturtu í fimm daga, hafði ekki fengið nein góð tækifæri til þess að lauma mér einn í sturtu. Þá var ég skikkaður til þess að fara í sundlaugina. Allir voru farnir upp úr og verið að loka lauginni, þá var mér skipað að henda mér ofan í.

Þá lenti ég líka í þeirri frábæru reynslu að einhver fáviti hafði sett tannkrem í sjampóbrúsann og ég sápaði mig því með tannkremi.  Kom til baka eins og fífl, það varð ekki til þess að bæta ástandið. Það endaði með því að einhverjir lokkar voru klipptir af mér. Mér var slétt sama um það þá. Eina sem skipti máli var að ég komst í sturtu.

Ég gleymi því aldrei þegar ég var busaður í Flensborg. Þá voru busarnir hýddir og ég óttaðist svakalega að einhver myndi taka niður um mig. Það var það versta sem hefði getað komið fyrir mig því að þá myndu allir komast að því hvað ég var seinn til þroska og mér yrði strítt stanslaust í skólanum út af því.

Þegar ég var orðinn 17 ára og kominn upp í meistaraflokk var ég enn að forðast sturtuna. Feimnin var svo yfirgengileg. Það var ekki fyrr en ég var orðinn 21 árs og kominn til Lemgo sem ég ákvað að kýla á það og fara í sturtu eins og allir hinir. Ég hugsaði bara að hérna væri enginn sem þekkti mig og mína forsögu. Ég var orðinn fullþroska og vel yfir meðallagi hvað vexti líkamshára viðkom – jafnvel loðnari en Fúsi, Sigfús Sigurðsson, og þá er nú mikið sagt. Ég þurfti því engu að kvíða en minnimáttarkenndin og óttinn sátu í mér og fyrsta skrefið var mér ákaflega erfitt.

Svo jafnaði þetta sig og ég flaug inn og út úr sturtunum. Ég gleymi því þó aldrei hvernig mér leið. Líklega leiðir fólk ekki hugann að neinu þessu líku nú, flestir sjá bara töffarann með flott úr, á flottum bílum og sjálfstraustið í lagi. En þannig hefur það sem sagt ekki alltaf verið. Þessi reynsla mótaði mig og styrkti á endanum. Og enginn sigur er eins ljúfur og sá sem maður vinnur á sjálfum sér.

Síðast breytt: mivikudagur, 20 jl 2011, 01:42 eh