Fokhelda húsið

Eftir Einar Má Guðmundsson.

Úr bókinni Mályrkja III.

Ef þú vilt endilega vita það þá er kastalinn sem riddararnir hafa umkringt í huganum fokhelt hús með strekktu plasti fyrir gluggunum. Fokhelt hús í myrkrinu og plast sem í vindi flaksast til og frá einsog pedall í bassatrommu.

Já minnsta kosti í þetta sinn hefur kastalinn náð svo langt á þróunarbraut mannkyns að verða að teljast fokhelt hús.

Já fokhelt hús.

Það er sérstök ástæða til að taka það fram, því stundum eru kastalarnir bara mótatimbruð drög að sjálfum sér. Eða jafnvel hreinn hugarburður. Einsog á kvöldin þegar ég sit í röndóttu náttfötunum mínum uppí rúmi og læt brýrnar falla yfir díkin. Svo eru náttúrlega til plasteftirlíkingar af kastölum. En þær minna oft meira á miðbæjarskólann en raunverulega kastala.

Í húsagerðarlist er það einkum á sviði gluggaskreytinga sem mér finnst byggingastílnum hafa hnignað síðan á dögum Ívars hlújárns á miðöldum því hér í fokhelda húsinu mæta gluggarnir okkur ferkantaðir. Engir útskornir hræfuglar eða svífandi englar með barnatippi og gulllúðra.

En einsog þú hlýtur að geta ímyndað þér lesandi góður láta strákar sem breyta gúmmískóm í hesta og klæðast brynjum úr odelongarni hnignun gluggaskreytinga ekki hafa mikil áhrif á sig.

Fyrst það er ekki neinn ljóshundur á sveimi um húsið, engin vofa að vinna og aðeins múrslettur á plastinu tökum við hinni postullegu kveðju myrkursins og drögum sverðin úr ósýnilegum slíðrum.

Ryðbrúnn naglinn í spýtunni hjá Garðari ristir plastið í einum glugganum. Garðar hrekkur ánægður til baka með spýtunni í annarri hendinni.

Ég er svo lítill og léttur að ég er látinn skríða innum gluggann. Inní fokhelda húsinu er svo dimmt að myrkrið fær á sig alls konar liti í augum mínum. Það er engu líkara en ég hafi tekið inn ofskynjunarlyf. En það hef ég auðvitað ekki gert því ég er bara strákur og það er ekki enn búið að finna upp fíkniefnalögregluna. Ég á ekki einu sinni nafnnúmer og kynfæri mín eru hlutlausari en Sviss í átökum mannkyns.

Já nú veit ég það:

Ég hef ekki tekið inn ofskynjunarlyf. Ég er aðeins undir áhrifum myrkursins sem fyllir allt fokhelda húsið. Það er dimman sem er öll doppótt.

Jói, flýttu þér, okkur er svo kalt hérna fyrir utan heyrði ég í strákunum. Í flekahurðinni ískra hjarirnar líkt og í millikafla í langdreginni sinfóníu þegar ég hleypi strákunum inn gegnum hurðina sem hægt er að opna að innan. Mér dettur einna helst í hug að við séum að leika í fimmtudagsleikriti; þar eru alltaf svona hurðaskellir og ískur þú veist.

Þegar strákarnir ganga inn rýkur svo mikið út úr þeim að ég er hræddur um að ég hafi misst af einni sígarettu á meðan ég ölvaði mig á myrkrinu. Ég ætla að fara að æsa mig þegar ég skil að það er næturfrostið sem togar reykstrókana út úr þeim.

Suss...

Jón kveikir á eldspýtu.

Eitthvað dularfullt er að gerast.

Hér eru allir.

Í eldgulri birtunni verða andlitin dálítið draugaleg í framan.

Og þrusk.

Passið ykkur, einhver er að koma.

Nei fótatakið sem við heyrðum labbar framhjá fokhelda húsinu og beint út úr sögunni.

Léttir. Enginn að koma.

Jón tekur upp aðra grýtueldspýtu til hjálpar fötluðum og lömuðum og andlitin...

Þetta er nefnilega stórmál því ef einhver kemur eigum við ekki sjö mínúturnar sælar. Já reyndar ekki eina sekúndu. Það eru til dæmis sagðar sögur af stráknum sem var hengdur upp á löppunum. Og þær eru sko engin lygi. Það skal ég bara segja ykkur. Engin lygi. Nei.  Einu sinni ætlaðir líka þú Óli, þá kúlulaus á höfðinu, að kveikja í gömlum dagblöðum inní nýbyggingu til að hlýja þér um hendurnar. Þér var svo kalt á leiðinni heim úr tímakennslu að guðsorðin frá Daníel presti voru bara kisulegt mjálm í vindinum. Þér hlýnaði um leið og þú lagðir kuldabláar hendurnar yfir eldgula logana frá dagblöðunum. En þá kom eigandinn, feitur kall í vinnufötum og hengdi þig upp á vír. Að vísu ekki á löppunum. En hengdi þig samt. Þú sagðist allur hafa verið farinn að roðna og fundist litli pollurinn á gólfinu breytast í brunn ... Já ég get sagt ykkur fleira í þessum dúr. Einsog þegar eigandinn kom að mér þegar ég var að kúka í einni af nýbyggingunum. Lappirnar á mér skulfu svo mikið að ég hélt að hnéskeljarnar myndu brotna. Tennurnar glömruðu í munninum og það var næstum því liðið yfir mig þegar eigandinn lyfti mér uppí loft og sagðist mundu fara með mig uppá loft og henda mér út um gluggann. Ég, ég varð svo hræddur að ég pissaði yfir hann, beint oní rauðan skallablett á hausnum á honum ... þannig að þið sjáið að það er ekkert grín þegar einhver kemur.

Nú dregur Jón upp sígarettupakkann sem hann tók áðan undan steininum; um allt hverfið á Jón felustaði og herbergið hans er fullt af leynihólfum. Útí einu horninu í herberginu geymir hann til dæmis skókassa fullan af bíómiðum sem bróðir hans bólugrafni bakarinn hefur skráð aftan á ýmsar athugasemdir með leyniskrift sem hann ætlar seinna að kenna Jóni. skókassinn er gyrtur tarsanskýlu og límdur aftur með límbandi. En nóg um það í bili. Jón dregur upp fullan pakka af larksígarettum, en larksígarettur eru þeim sérkennum gæddar að á milli filtersins og sígarettunnar eru fínmöluð kol sem gerir það m.a. að verkum að larksígaretturnar eru stærstu sígaretturnar sem fáanlegar eru á höfuðborgarsvæðinu.

Hver fékkstu þennan pakka spyrð þú Óli og kúlan horfir rannsakandi yfir heiminn. Þú getur alveg sagt þér það sjálfur Óli að Jón hefur ekki stolið þeim í afmælinu heima hjá þér því mamma þín reykir chesterfield en ekki lark.

Ha ha ha kar fékk ég hann hlær Jón. É´bara gekk að lúgunni hanna Jónslúgu nirrí sundum og saðði við konuna einn lark og konan laðði larkinn á borðið, og þá saðði ég aftur ha ha ha eina dós af ananas. Og á meðan konan náði í eina dós af ananas hljóp ég burt með pakkann ...

Ha ha ha við veltumst um af hlátri.

Viljið þið sígarettu?

Eftir talsvert japl með bakþönkum í anda barnastúkunnar Silfur alheimsins vilja allir eina lark.

Jón brýtur eina sígarettu og sýnir okkur kolin sem heilbrigðisráðherra breta lætur tóbaksfabrikkurnar setja inn í sígaretturnar til að gera þær hollari. Það er allt í lagi að reykja lark, hugsa ég, kolin draga úr hættunni á lungnaskemmdum og öllu því sem mamma segir að fylgi tóbaksreykingum ... og svona litlir strákar þurfa síst að vera að pæla í krabbameini. Það fá bara miðaldra blaðamenn í fræðslumyndunum hjá KFUM.

Þess vegna fá sér allir larksígarettu. Já allir nema Garðar. Hann vill ekki reykja nema til séu mentóltöflur. Sterkt mentól úr apótekinu er algjört frumskilyrði tóbaksreykinga því Garðar er svo hræddur um að hún mamma hans þefi út úr sér þegar hann kemur heim. Sjálf hefur hún nefnilega minnkað tóbaksreykingar niður í eina sígarettu eftir uppvaskið. Fyrir vikið er hún alltaf að vaska upp og finnur sígarettulykt af öllu.

Auðvitað erum við hinir hræddir við lyktina líka, en ... lark, hvað er ein lark úr pakka sem opnast eins og dularfull askja ... lark ... Af ótta við að hljóma eins og sígarettuauglýsing segi ég ekki meir því það er bannað með lögum.

En þannig sem sé: Í myrkri fokhelda hússins sem í hausnum á mér er kastali loga fjórar glóðir og við riddararnir sitjum í ljósgráum reyknum, hetjur í hvíld frá afrekum liðins dags. Við segjum Jóni og Finni frá appelsínugulu netakúlunni og hvernig þú Óli stangaðir þann hrokkinhærða með kúlunni í punginn. Okkur finnst öllum eins og hann hljóti að hafa heitið Sigurgeir. Fingurnir leika við sverðsoddana í naglaspýtunum og einhvers staðar í fjarska kalla mömmur okkar útí kvöldið.

Ég sagði ykkur áðan að það væri ekkert grín ef einhver kæmi. Og það er alveg rétt; það er ekkert grín. Ef einhver kæmi til dæmis núna yrðu allar larksígaretturnar gerðar upptækar og slóð þeirra jafnvel rakin aftur innum lúguna á Jónsbúð. En það getur líka verið mjög gaman ef einhver kemur, það er að segja ef manni tekst að skjóta sér útí eitthvert af skúmaskotunum og halda óséður niðri í sér andanum. Já þá má fá sitthvað út úr lífinu.

Einkum finnst mér merkilegt þegar hjón sem eiga eftir að búa á einhverri af hæðum hússins koma að skoða; maður sér þau labba inn í sparifötunum, konan oftast ólétt í nælonsokkum og háhæla skóm, inní maganum á henni eitthvert væntanlegt frík í hverfinu, maðurinn í nýpressuðum jakkafötum með vindil, ef til vill bíóprógramm uppúr einum vasanum. Já með þennan upprétta svip sem fylgir tíðafarinu þú veist eins og hann gangi með heiminn í brjóstkassanum. Hann styður konuna upp stigann svo hún detti ekki niður í háhæla skónum því tröppurnar eru ómúraðar og alls kyns vatnsglundur og vírar á gólfinu. Já alveg eins og núna hér fyrir framan okkur í tóbaksreyknum frá larksígarettunum, vírar og vatnsglundur. Ef maðurinn er drukkinn stingur hann vindlinum uppí sig, lætur jafnvel bíóprógrammið með bogart eða einhverjum öðrum kalli með hatt detta niður á gólf og leysast uppí polli á meðan hann út frá skyndilegri hugdettu tekur konuna í bóndabeygju. Konan byrjar náttúrlega að æpa og háhæluðu skórnir sprikla. Passaðu þig passaðu þig, kápan getur slegist í pollana segir hún með örvæntingarfulla angistardrætti einsog utan á kvikmyndaprógrammi. Og maðurinn passar sig. Hann passar sig svo vel að vindillinn hreyfir sig ekki í munnvikunum og kápan hún snertir ekki pollana. Þá breytast óp konunnar í kitlandi hlátur. Svona Lási segir hún ef maðurinn heitir Lárus. Hann fer eitthvað með höndina. Ææ Lási. Með augun inní skúmaskotinu finnst mér eins og maðurinn hlæi með bakinu því ekki getur hann hlegið hinseginn með vindilinn uppí munninum og bomsí konu í fanginu.

Þú getur rétt ímyndað þér.

Þessu er gaman að fylgjast með.

Að þessu hef ég Jóhann Pétursson þrisvar sinnum orðið vitni. Í eitt skiptið heyrði ég að uppá lofti small í magabelti, ég þekki alveg hljóðin og hvítur brjóstahaldari flaug eins og máfur út um glugga. Konan og maðurinn voru að ímynda sér að svefnherbergið væri tilbúið undir tréverk. Já og svo héldu þau bara áfram þar til hugurinn hafði smíðað hjónarúm útí einu horninu. Ég reyndi auðvitað að hætta að draga andann. En það var algjör óþarfi því konan og maðurinn önduðu svo hátt. Mér leið eins og veröldin væri bíómynd stranglega bönnuð ...

Hin tvö skiptin sem mér tókst að fela mig inní fokheldri nýbyggingu var það meira svona fílósófía um gólflistana sem vantaði og pæling í útsýninu á efstu hæð. Það var ágúst, sólin var að setjast og veggirnir ómuðu af vangalögum. – Þannig að þið sjáið að það getur líka verið gaman að vera lokaður inní svona nýbyggingu. Já eða að minnsta kosti fróðlegt.

Annars er það merkilegt að húsin í hverfinu sem nú eru að rísa upp hvert á fætur öðru þau þekkjum við strákarnir mun betur en fólkið sem á eftir að búa í þeim. Þetta er líka sorglegt því í öllum þessum leyndardómsfullu skotum þar sem einveran hugsar verður kannski bara geymdur klósettpappír eftir að búið er að flísaleggja. Já hvað verður til dæmis varið í þetta þrönga skot hér þar sem við sitjum með larksígaretturnar þegar búið verður að geyma hér óhreina sokka í tíu ár segið mér það ha?

Nú er ég búinn að sjúga larksígarettuna alla leið oní kolamolana. Mig svimar og doppótt dimman skiptir litum í augum mínum.

Eigum við að fá okkur aðra spyr Jón.

Nei. Mótmælin brjótast fram af vörum riddaranna.

Jú það er svo gaman að kveikja í með stubbunum. Nautnalífið heillar riddarann í rifnu nælonskyrtunni.

Reykt´ana bara sjálfur segi ég.

Djöfulli eruð þið leiðó.

Það liggur alltaf þetta í loftinu; ef ... ef einhver kemur. Við erum í feluleik við veröldina. Guð gæti ekki einu sinni fundið okkur.

Riddararnir standa upp. Við rekum naglaspýturnar uppí loft og látum raddir okkar bergmála í fokheldu húsinu. Ef einhver kemur getum við leikið drauga með naglaspýturnar á lofti. Við munum skylmast. Við munum berjast. Snúa bökum saman og berjast til síðasta manns. Fokhelda húsið er einsog Drangey; við höfum lagt það undir okkur. Ef einhver kemur breytumst við í drauga. Ég panta að vera rödd af hafsbotni. Jón þú getur stokkið fram í líki úlfs og bitið af honum puttana. Ha ha ha. Búmm, búmm, búmm. Ef einhver kemur tekur þú Óli hann hálstaki aftan frá á meðan Garðar klípur í nefið á honum með svörtum leðurfingrum og dimm rödd úr koki Finns spyr:

Vott ar jú dúing hír.

Haldiði að það yrði taugaáfall? Því einsog þú veist lesandi góður það er ekki bara gluggaskreytingum og vopnaburði sem hefur hnignað frá dögum Ívars hlújárns á miðöldum. Hetjudáðirnar hafa líka fengið annað inntak.

Við erum óhultir í húsinu. Það kemur enginn. Öll borgin er byrjuð að hátta sig og við ríkjum hér aleinir í þessari höll.

Jón er hálffúll yfir því að þurfa að vera að reykja aleinn. Í hans augum eru tóbaksreykingar nefnilega félagsleg athöfn, næstum því hátíðleg með helgisiðum og öllu. Hann snýr í okkur baki og leggur af stað upp stigann. Já Jón gengur fremstur upp hringstigann.

Ég spegla mig í polli á gólfinu. Það teygist úr augunum og ennið er hærra en á frummanninum.

Hugurinn stefnir upp.

Uppí turninn þar sem leyndardómarnir bíða.

Síðast breytt: mivikudagur, 14 september 2011, 08:34 eh