Knattspyrnan í kvikmyndum

Úr tímaritinu Goal 2. tölublað 2010

 

Iðjagrænn völlur sem endurspeglar vítt litróf tilfinninga hlýtur að vera fullkominn staður til að sýna á hvíta tjaldinu. Fótboltanum hefur verið gerð góð skil í ýmsum kvikmyndum frá öllum heimshornum. Í kvikmyndaheiminum býður íþróttin upp á blóð, svita og tár.

Fótbolti hefur í kvikmyndasögunni verið birtur sem táknmynd ólíkra átaka, drauma og margbreytni í samfélaginu. Þannig var knattspyrnan notuð sem pólitísk samlíking í „Escape to victory“ frá 1981, tákn um hið daglega amstur í „When Saturday Comes“ frá 1996, aðferð til að takast á við sorgina í „Gracie“ frá 2007 eða í staðinn fyrir trúarlega iðkun í „The Cup“ frá 1999. Fótbolti birtist oft sem aðferð til að flýja veruleikann, líkt og kvikmyndirnar sjálfar eru.

Ein fyrsta kvikmyndin þar sem fótbolti var aðalatriði í söguþræðinum var breska morðgátumyndin „The Arsenal Stadium Mystery“ frá 1940. Hún segir frá leikmanni sem dettur dauður niður í miðjum vináttuleik. Sagan var ekki beinlínis trúverðug en hún er gamalt dæmi um hvernig fótboltinn getur þjónað hlutverki rammans í sögu. Eins og við var að búast hafa Bretar framleitt flestar kvikmyndir um íþróttina. Á tíunda áratugnum hófu kvikmyndagerðarmenn í auknum mæli að skapa myndir þar sem fótbolti kom mikið við sögu. Þekktustu dæmin um slíkar myndir voru gerðar á þessum áratug, „Bend it Like Beckham“ frá 2002 og „Goal“ – þríleikurinn.

Einnig hefur verið fjallað um hinar myrku hliðar knattspyrnunnar á hvíta tjaldinu; fótboltabullurnar. Stærsti vandi kvikmyndagerðarmanna er að finna réttan tón til að fjalla um þau mál. Því miður voru engin landamæri á milli hrifningar og gagnrýni á ofbeldi í „The football Factory“ frá 2004, en kvikmyndin er dáð af mörgum fótboltabullum.  „Green Street“ frá 2005 skartar Elijah Wood í hlutverki Bandaríkjamanns sem lendir í miðju fótboltabullustríði með West Ham - genginu GSE. Þráður myndarinnar þróast snemma í óljóst melódrama og missir marks. „The Firm“ frá 1988 er dæmi um kvikmynd þar sem meiri orka er lögð í sálfræðilega athugun á ástæðum ofbeldis og gefur skýra mynd af ástæðunum fyrir óstjórnlegu hatri.

Fyrirbærið knattspyrna hefur einnig verið skoðað í ýmsum heimildamyndum. Í „Kill the refegee“ frá 2009 fá áhorfendur að skyggnast inn í líf atvinnudómara. Það getur verið vanþakklátt starf, eins og sannaðist á EM 2008 þegar Howard Webb fékk líflátshótanir, sem forsætisráðherra Póllands hafði óbeint hvatt til, og var líkt við Hitler á myndskeiði  á Youtube. Í „Maradona eftir Kusturica“ frá 2008 er argentínska stjarnan heimsótt. Hin stórfurðulega Maradona-kirkja er einnig skoðuð og hatur Maradona á George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, er lagt undir smásjá. Ef lesendum langar að sjá knattspyrnuna setta í búning listaverks er ekki úr vegi að horfa á „Zidane: A 21st Century Portrait“ frá 2006. Í myndinni, sem Sigurjón Sighvatsson framleiddi, fylgja 17 myndavélar hverju skrefi snillingsins í leik á milli Real Madrid og Villareal.

Það er erfitt að spá um framtíð fótboltakvikmynda. Það væri áhugavert að sjá fleiri myndir sem fjalla um það sem gerist á bak við tjöldin. Um það hvað raunverulega fer fram þegar leikmenn eru keyptir, seldir og skoðaðir; þar sem innsýn væri gefin inn í knattspyrnuheimi viðskipta og fjármála. En það er ólíklegt að við fáum að skyggnast inn fyrir dyrnar í þeim leyndarheimum og við þurfum að sætta okkur við að heyra bara slúðrið.

Þar sem flestar knattspyrnumyndir eru frá Bretlandi væri áhugavert að sjá fleiri kvikmyndir byggðar á deildum Miðjarðarhafslandanna, sérstaklega spænsku úrvalsdeildinni og Seríu A, þar sem fjallað væri um allt frá mútuhneykslum og Berlusconi til hégómans og leitinni að ungum hæfileikamönnum.

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:29 eh