Auður djúpúðga Ketilsdóttir

Úr bókinni Kappar og kvenskörungar eftir Gísla Jónsson

 

Ketill flatnefur, maður norrænn, var sonur Bjarnar bunu, Gríms sonar hersis úr Sogni. Enda svo margar ættartölur Íslendinga, enda átti Ketill flatnefur fimm börn sem fóru til Íslands, er fréttist þar af góðum landkostum og athafnafrelsi. Ekki fóru þau öll beina leið, og ekki vildi Ketill fara sjálfur. Hann sagðist aldrei mundu koma í þá veiðistöð á gamals aldri og hélt vestur um haf (til Skotlands).

Börn Ketils, sem til Íslands fóru, voru Björn austræni, Þórunn hyrna, Helgi bjólan, Jórunn mannvitsbrekka og Auður djúpúðga sem hér verður lítillega sagt frá.

Auður fór með föður sínum til Skotlands. Hún átti Ólaf hvíta Ingjaldsson og með honum nokkur börn, þeirra á meðal Þorstein rauð. Hann var drepinn ungur, og Ketill gamli faðir hennar andaður, svo og Ólafur hvíti. Hún lét þá í leyni gera knörr mikinn og kom þar á miklum verðmætum og góðri áhöfn. Svo er sagt að engin kona hafi komist brott úr þvílíkum háska með jafnmiklu fé og föruneyti. Var hún kölluð afbragð annarra kvenna.

Auður hitti bræður sína á Íslandi. Þótti henni Helgi taka sér lítilmannlega, en Björn höfðinglega.

Auður var ekki öðru sinni manni gefin og gerði sér bú í Hvammi í Dölum. Var margt skyldmenna og tengdamenna þar í skjóli hennar. Ósk Þorsteinsdóttir, sonardóttir hennar, var móðir Þorsteins surts hins spaka sem fann upp sumarauka. En yngstur barnabarna hennar var Ólafur feilan (=ylfingur), og varð höfðingi mikill og ættfaðir.

Auður Ketilsdóttir hafði kristnast vestanhafs. Hún hafði bænahald á Krosshólum nær Hvammi sem svo hétu, því að hún hafði látið reisa þar krossa og var vel trúuð. Höfðu afkomendur hennar mikinn trúnað á Krosshólum og héldu sig jafnvel mundu deyja inn í þá.

Auður var há vexti og mikilmannleg og lét elli og sjúkdóma lítt á sér festa. Tók hún helstríði og dauða með minnisstæðri reisn.


 

Síðast breytt: mivikudagur, 14 september 2011, 08:16 eh