Kóngurinn Pelé

Samantekt: Guðrún Íris Valsdóttir

 

Pelé er einn frægasti fótboltamaður heims. Hann er fæddur árið 1940 í Brasilíu og heitir í raun Edson Arantes do Nascimento. Í æsku fékk hann gælunafnið Pelé og er hann þekktur út um allan heim undir því nafni. Hann hætti að æfa fótbolta opinberlega árið 1977 en samt er ennþá litið á hann sem átrúnaðargoð, sérstaklega í heimalandi hans, Brasilíu.

Faðir Pelé var einnig fótboltamaður. Fótboltahæfileikar Pelé komu fram þegar hann var ungur þrátt fyrir að hann hafi ekki haft góða æfingaaðstöðu eða þann búnað sem fótboltakrökkum í dag þykir sjálfsagt að hafa aðgang að. Hann hafði til dæmis ekki efni á alvöru fótbolta og því fyllti hann sokk af dagblöðum og batt fyrir með snæri. Einnig notaði hann greipávöxt sem fótbolta. Þegar hann var 11 ára sá maður að nafni Waldemar de Brio til hans. Hann var frægur fótboltamaður í Brasilíu og bauð Pelé að spila með æfingaliði sínu. Í framhaldi af því fór hann að spila með brasilíska liðinu Santos, árið 1956. Þá var hann aðeins 15 ára gamall. Í fyrsta leik sínum með Santos skoraði Pelé fjögur mörk. Menn sáu strax hversu góður hann var og hann var orðinn fullgildur meðlimur í brasilíska landsliðinu aðeins 16 ára gamall. 17 ára vann hann sinn fyrsta heimsmeistaratitil með brasilíska landsliðinu.  Hann tók fjórum sinnum þátt í heimsmeistarakeppninni með brasilíska landsliðinu, árin 1958, 1962, 1966 og 1970. Þar af vann hann heimsmeistaratitilinn þrisvar sinnum; 1958, 1962 og 1970.

Pelé spilaði með Santos til ársins 1974. Á þessu 18 ára tímabili skoraði hann meira en 1200 mörk og átti meira en 1100 stoðsendingar í 1360 leikjum. Hann var í brasilíska landsliðinu frá 1956 til 1971 og skoraði að meðaltali eitt mark í leik í alþjóðakeppnum.

Pelé var miðjumaður og gat því bæði notað hæfileika sína í vörn og sókn. Hann var mjög góður sóknarmaður, spilaði hratt og af öryggi og var jafnvígur á báða fætur til að gefa boltann hratt og nákvæmlega upp völlinn. Þegar hann fékk tækifæri til að skora þá geiguðu skotin hjá honum sjaldan. Hann gat einnig stjórnað því vel hvert boltinn fór þegar hann skallaði hann.

Einna þekktastur er Pelé fyrir hjólhestaspyrnur sínar. Þá hoppaði hann upp í loftið og tók nokkurs konar heljarstökk þannig að fæturnir voru fyrir ofan höfuð hans. Í samhæfðri hreyfingu sem leit út eins og hann væri að hjóla sparkaði hann í boltann með öðrum hvorum fætinum. Þetta gerði hann með bakið í markið þannig að boltinn fór beina leið í átt að netinu og oftar en ekki í netið.

Evrópsk lið höfðu mikinn áhuga á að fá Pelé til sín og buðu honum gull og græna skóga, gengi hann til liðs við eitthvert þeirra. Til þess að komast hjá því að missa Pelé til útlanda lýstu brasilísk yfirvöld því opinberlega yfir að Pelé væri þjóðargersemi.

Eftir að Pelé hætti í brasilíska boltanum, árið 1974, gekk hann til liðs við New York Cosmos. Það hafði mikla þýðingu fyrir uppgang fótbolta í Norður Ameríku. árið 1977 hætti Pelé að keppa í fótbolta. Á sínum tveimur árum með Cosmos hafði hann skorað yfir 100 mörk og átt 65 stoðsendingar.

Eftir að hann settist í helgan stein hefur hann látið til sín taka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, t.d. hjá UNICEF, sem er Barnahjálp sameinuðu þjóðanna. Hann hefur verið ötull talsmaður þess að útrýma fátækt í heiminum. Þess má geta að þegar hann skoraði 1000. mark sitt þá tileinkaði hann það fátækum börnum í Brasilíu.

Pelé var kosinn fótboltamaður aldarinnar árið 1999 af alþjóðlegum fótboltasögusamtökum (IFFHS) og sama ár kaus alþjóða ólympíunefndin hann íþróttamann aldarinnar, þrátt fyrir að hann hafi aldrei keppt á ólympíuleikum. Auk þess hefur hann verið sleginn til riddara í Englandi (1992) og hann var fyrsta íþróttahetjan sem notuð var í tölvuleik, í leik frá Atari sem kallaður var Fótbolti Pelés.

Á ferli sínum hefur Pelé fengið viðurnefnið kóngurinn, og kannski ekki að ástæðulausu.

 

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Pel%C3%A9

http://en.wikipedia.org/wiki/Pel%C3%A9#Early_years

http://www.faqs.org/sports-science/Mo-Pl/Pel.html


 

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:18 eh