Hver er munurinn á gosinu í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli?

Frétt af fréttavefnum Vísi þann 28. maí 2011

 

Aska úr Grímsvatnagosinu og truflanir á flugsamgöngum í Evrópu vegna öskufalls hafa orðið mörgum tilefni til þess að bera það saman við gosið í Eyjafjallajökli í fyrra. Þó að afleiðingarnar séu um margt líkar eru gosin þó talsvert ólík, að sögn Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði.

„Í fyrsta lagi eru þetta mjög ólík eldfjöll. Grímsvötn er basalteldfjall og eitt af virkustu eldfjöllunum hér á landi. Það er á flekaskilunum sem liggja í gegnum landið og hefur gosið mjög oft. Það er eitt af okkar virkustu. Eyjafjallajökull er hins vegar eitt af latari fjöllunum og hefur gosið mjög sjaldan og aldrei mjög dramatískt. Það eru ekki þekkt nein hamfaragos úr því eldfjalli."

Páll segir kvikuna úr Eyjafjallajökli oft vera það sem kallist þróuð kvika, sem hafi allt aðra eiginleika en basaltkvikan sem kemur úr Grímsvötnum. „Hún er seigari og gasríkari og þess vegna miklu sprengjuvirkari, en það er helsti munurinn á þessum tveimur skepnum. Í gosinu í Eyjafjallajökli var askan miklu fínkornóttari vegna þess að sprengivirknin var miklu meiri og því fór askan í mun minni agnir. Það gerir hana erfiða viðfangs þar sem hún hangir mikið lengur í andrúmsloftinu en gerist með grófkorna ösku líkt og kemur frá Grímsvötnum."

Páll segir að það sé ein af útskýringunum á því af hverju Grímsvatnagos hafði takmarkaðri áhrif á flugsamgöngur, en margt fleira komi þó til. „Aðstæður í fyrra voru allt aðrar og það var samkrull af mörgum aðstæðum sem varð til þess að það gos olli svo miklu tjóni, meðal annars veðrið. Það var stífur vindur á meðan á gosinu stóð þannig að askan fór beint þangað sem hún gat valdið mestu tjóni. Svo hélt það áfram óvenju lengi og dældi ösku dag eftir dag.

Gosið núna í Grímsvötnum byrjar með miklum látum og er miklu stærra gos í raun og veru, en stendur stutt yfir þar sem erfiðasti fasinn er sennilega nú um garð genginn þó að gosið sé ekki alveg búið.

Páll segir þó að Grímsvatnagosið hafi ekki verið alveg eftir bókinni. „Það sem kemur okkur verulega á óvart er hvað það er gríðarlega stórt, því að við höfðum frekar gert ráð fyrir að það yrði eins og í síðustu þremur Grímsvatnagosum, sem öll hafa verið frekar lítil og meinlaus. Það fór svolítið fram úr okkur þar."

Hann segir þó ljóst að bæði gosin hafi verið afar lærdómsrík og hafi bætt miklu við þekkingu fræðimanna og viðbragðsaðila.

 

Heimild:http://www.visir.is/hver-er-munurinn-a-gosinu-i-grimsvotnum-og-eyjafjallajokli-/article/2011705289947

Síðast breytt: mivikudagur, 20 jl 2011, 12:50 eh