„Lazy snake“ – fyrsta gæludýrið

 

Hér á eftir fara tillögur að því um hvaða atriði textans nemendur þurfa að draga ályktanir. Alls ekki er víst að það séu þessi atriði sem nemendur þurfa að draga ályktanir um. Atriðin gætu verið fleiri eða færri. Þankasíðuna Ályktun út frá bakgrunnsþekkingu er gott að hafa við höndina.

 • Í byrjun þyrftu nemendur og kennari að huga að bakgrunnsþekkingu sinni um Loga Geirsson. Vita nemendur hver hann er? Geta þeir tengt hann við eitthvað t.d. handboltann eða hárgelið Silfur sem hann og félagi hans hafa framleitt? Hvað segir orðið „atvinnumannasaga“ í titli bókarinnar nemendum hvað þeir eru að fara að lesa um?
 • Í fyrstu efnisgrein segir Logi „fyrsta árið mitt í Lemgo“. Hvað gæti hann verið að tala um þarna? Þekkja nemendur einhvern sem heldur slöngu sem gæludýr? Má það á Íslandi?
 • Í annarri efnisgrein segir Logi „hvort þetta væri ekki bara málið.“ Hvað gæti hann verið að tala um?
 • Í þriðju efnisgrein segir Logi „...og skrifaði bara undir.“ Hvað gæti hann verið að tala um?
 • Í fimmtu efnisgrein segir Logi „Það sló algerlega í gegn“. Hvað meinar hann?
 • Í sjöttu efnisgrein talar Logi um að snákurinn fari úr hamnum. Hvað þýðir það?
 • Í sjöundu efnisgrein talar Logi um að hann sé heltattúveraður en megi samt ekkert aumt sjá. Hann lætur að því liggja að það séu einhverskonar andstæður. Hvers vegna?
 • Í áttundu málsgrein kemur fyrir orðatiltækið „en allt kom fyrir ekki“. Hver er meiningin á bak við það?
 • Í níundu málsgrein segir Logi „þetta var svona Free Willy – augnablik“. Hvað gæti hann verið að meina? Hafa nemendur séð kvikmyndina Free Willy? Af hverju þekkja margir Íslendingar þá mynd? (Háhyrningurinn Keikó, sem veiddur var við Íslandsstrendur og kom svo „aftur heim“ eftir kvikmyndaferilinn, lék Willy sem var háhyrningur í dýragarði sem fékk frelsi sitt á ný. Keikó var hafður við Vestmannaeyjar og kennt að lifa lífi hinna frjálsu og var svo sleppt á haf út þegar hann hafði lært að bjarga sér í náttúrulegum aðstæðum).
 • Í tíundu málsgrein segir Logi að slökkviliðið hafi leitað að snáknum. Hvernig má það vera? Af hverju mátti hann ekki sleppa snáknum? Hvert gæti hann hafa farið?
 • Í elleftu málsgrein segir Logi að hann hafi verið litinn hornauga af nágrönnum sínum. Hvað þýðir það?
 • Í tólftu málsgrein segir Logi „Það urðu samt engin eftirmál“. Hvað gæti hann verið að meina?
Síðast breytt: rijudagur, 2 gst 2011, 06:15 eh