Tanni í jökulsprungu

Úr bókinni Það reddast. Sveinn Sigurbjarnarson ævintýramaður á Eskifirði lítur um öxl eftir Ingu Rósu Þórðardóttur.

 

Árið 1987 fór ég hefðbundna páskaferð, eina af mörgum, og stefnan var tekin á Grímsfjall með viðkomu í Kverkfjöllum. Bíllinn var fullskipaður farþegum, þar á meðal var Díana Mjöll. Við vorum á leið úr Snæfelli í Kverkfjöll og ætluðum að gista í skála Jöklarannsóknarfélags Íslands uppi í Kverkfjöllum.

Ég hafði oft farið þessa leið áður og var þar að auki með lóranpunkta til viðmiðunar sem ég ók eftir. En þarna voru breyttar aðstæður því það hafði verið miklu minni úrkoma um veturinn en næstu ár á undan. Ég þræddi þekkta slóð upp á Kverkfjallahrygginn, um tólf kílómetrum sunnan við sjálf fjöllin, en það er ekki alltaf öruggt eins og sannaðist í þessu tilviki þegar við lentum í sprungu sem átti alls ekki að vera þarna. Það var í raun mikil mildi að ekki fór verr því hefði ég farið bílbreiddinni norðar hefðum við farið beint niður í sprunguna og óvíst hvort nokkuð hefði spurst til okkar framar. En ef ég hefði farið bílbreidd sunnar hefðum við sloppið. Svona getur þetta verið naumt.

Ég hafði verið þarna á ferðinni frá árinu 1971 með einhverjum hléum og fyrir þennan atburð hefði ég getað svarið fyrir að hægt væri að aka inn á sprungusvæði án þess að taka eftir því. Þar sem eru sprungur er alltaf hægt að sjá slakka í landslaginu en því var ekki til að dreifa þarna. Venjulega var þarna fjögurra til átta metra snjólag sem lokaði öllum sprungum en snjólagið nú var innan við einn metri ofan á hörðum klaka og það var ekki einu sinni ársúrkoma því þetta var í mörgum lögum. Þetta voru því mjög óvenjulegar aðstæður.

Það var auðvitað lyginni líkast að Tanni skyldi ekki fara þarna niður með manni og mús og mikil mildi yfir okkur. Það stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þegar ég skynja fyrst fyrir alvöru hvað hafði gerst. Þetta gerðist svo mjúklega, hann bara seig niður að aftan, svo ég var alveg rólegur. Ég fór fyrstur út úr bílnum og gekk aftur fyrir hann. Ég sá strax að hann var sokkinn og að greinilega væri holrúm undir. Í raun var bara heppni að ég skyldi sjálfur ekki fara niður því ég tróð og traðkaði á holrúminu. Ég lýsti með vasaljósi niður fyrir framan bílinn farþegamegin þar sem var smáglufa og þegar ég sá ekki til botns áttaði ég mig fyrst á því að nú væri rétt að fara varlega. Ég sagði því fólkinu að við færum ekki lengra í bili en ekkert meira. Fyrst var auðvitað að koma öllum út með gætni og án þess að hræða fólkið.

Ég drap á bílvélinni og setti gírstöngina fram svo hún væri ekki fyrir því það urðu allir að fara út um dyrnar bílstjóramegin. Ekki var möguleiki á að nota dyrnar farþegamegin. Í framsætinu sat erlend stúlka sem ég gat ekkert talað við svo ég reyndi að benda henni að fara út þarna. Ég var hræddastur um að hún yrði skelfingu lostin og æddi út sín megin. Þá hefði hún farið beint niður í hyldýpið. Þetta var svipuð tilfinning og þegar ég áttað mig á því að Tommi væri horfinn ofan í sprungu við Svíahnjúk.

Fyrst kom ég öllu fólkinu út úr bílnum og bað það að bíða rólegt á meðan ég kannaði aðstæður betur. Bíllinn var siginn niður að aftan svo hann hékk í raun á olíutanka sem er festur með þremur boltum að aftan. Tankinn hékk á ísbrúninni á hægra afturhorni en vinstra megin að framan hékk bílinn á hálfri tönninni og fremsta hjólinu í beltinu þannig að hann var þokkalega á föstu þar. Ég sagði Skarphéðni Þórissyni á Egilsstöðum, einum farþeganna, frá því að við værum illa stödd en gætti þess að láta aðra ekki verða vara við raunverulega stöðu okkar.

Það var ekki um annað að ræða en að leita uppi tjöldin sem voru aftur í bílnum. Ég var alltaf með nokkur tjöld með mér til að grípa til ef eitthvað kæmi upp á. Stundum voru líka farþegar svo margir að það var ekki gistipláss fyrir alla í litlum skálum og þá var gott að geta dregið fram tjöld. Þetta voru þykk og fín tjöld og í þetta skipti komu þau sér vel.

Við vorum með þrjú tjöld en eitt þeirra var súlulaust og þar vildi auðvitað enginn vera svo ég var þar í einbýli. Við settum upp tjöldin og byggðum okkur lítið snjóskýli og síðan fór ég að reyna að hugsa næstu skref. Ég var ekki búinn að láta vita til byggða hvað hefði gerst og vildi ekki gera það rétt undir nóttina. Það hafði engan tilgang og hefði bara hrætt okkar fólk. Farþegarnir vissu auðvitað að við færum ekki lengra í bili en þeir vissu ekki hvað ástandið var alvarlegt. Mikilvægast var að allir héldu ró sinni og svæfu eins vel og hægt væri við þessar aðstæður. Ég vildi líka fá tíma til að hugsa málið aðeins betur og finna lausn.

Ég fór svo að moka snjó ofan í sprunguna undir bílnum og velti því fyrir mér á meðan hvernig ég gæti leyst málið. Ég fékk ýmsar hugmyndir en komst ekki að neinni niðurstöðu. Þetta gerðist að kvöldi föstudagsins langa um klukkan tíu og ég mokaði fram eftir nóttu en fljótlega kom í ljós að það væri vonlaust mál að handmoka ofan í sprunguna til að tryggja bílinn og losa hann. Þegar ég fór að pjakka þarna og hreinsa frá sá ég að það myndi aðeins verða til þess að hann félli niður, líklega um tuttugu metra, og þá yrði hann ekki sóttur. Ég ákvað því að það væri bara best að fara að sofa og svaf ágætlega um nóttina enda búinn að þreyta mig vel með mokstrinum.

Oft er það svo að í morgunsárið hugsar maður dálítið skýrar og þá ákvað ég að hringja í Hannes Hafstein hjá Slysavarnafélagi Íslands og segja honum hvernig komið væri fyrir mér en biðja hann jafnframt að senda ekki tuttugu til þrjátíu björgunarsveitir á mig. Ég vildi ekki fá yfir mig múg og margmenni víða að og stofna þannig fjölda fólks í hættu. Hann var ekki hrifinn og sagði að þetta væri það versta sem ég hefði getað beðið hann um enda skammaði hann mig oft og kröftuglega fyrir að hafa ekki kallað eftir hjálp þegar Tómas Zoëga fór ofan í sprunguna. En ég útskýrði fyrir Hannesi að enginn væri í hættu, við værum með tjöld og nægan mat og það væsti ekki um okkur þannig að hann sættist á að bíða.

Þegar ég er nýbúinn að kveðja Hannes hringir síminn hjá mér. Það er þá Heimir Sveinsson, starfsmaður RARIK á Egilsstöðum, að leita að samstarfsmanni sínum, Birni Ingvarssyni, sem hann hélt að væri kannski með mér. Það var nú ekki en við spjölluðum litla stund og á meðan datt ég niður á lausn sem gæti dugað. Þegar við erum búnir að ræða það fram og til baka hvar líklegast sé að Björn sé niðurkominn segi ég honum að ég sé í hálfgerðum vandræðum og hann sé líklega einmitt maðurinn sem geti bjargað mér og útskýri fyrir honum stöðu mína.

Þannig var að RARIK á Egilsstöðum átti þverslár úr rafmagnslínum, öfluga rafta, og þar að auki átti RARIK snjóbíl með spili, sams konar bíl og Tanna. Ég útskýrði fyrir Heimi hvað ég væri að hugsa og sagði honum að ég þyrfti aðeins að mæla vegalengdina og fá þá svo til að koma og bjarga mér. Heimir setti allt í gang og þá fannst mér tímabært að lýsa stöðunni fyrir farþegum og láta vita af sér heim því nú lá fyrir hvernig komið væri fyrir okkur og hvað væri framundan. Díana Mjöll var þarna tólf ára gömul. Hún talaði við mömmu sína sem spurði hana hvar hún væri þá stundina. Hún sagðist vera í Tanna. Mamma hennar bað hana að gjöra svo vel að koma sér út úr bílnum strax en Díana spurði hvað þetta væri eiginlega, bíllinn væri búinn að vera þarna alla nóttina. En það var ekki skrýtið þótt Magga vildi að stelpan kæmi sér út úr bílnum. Ég hafði gefið henni miður fallegar lýsingar á stöðunni enda var hún ekki fögur.

Þórhallur Þorsteinsson, starfsmaður RARIK, kom á snjóbílnum Goða og með honum hópur frá Slysavarnadeildinni Gró á snjóbíl sveitarinnar, Inni-Krák. Þar að auki kom hópur Hjálparsveitar skáta á Egilsstöðum en þeir höfðu verið í Kverkfjöllum á nýjum snjóbíl sem þeir kölluðu Gretti. Þegar þessir menn voru komnir á vettvang vildi ég gera lokatilraun til að flytja efni og fylla undir Tanna svo við misstum hann ekki niður þannig að við reyndum það nokkra stund. En það kom fljótlega í ljós að það var ekkert efni að flytja, svæðið alveg krosssprungið og bara þunnt snjólag ofan á ísnum. Það var mikil mildi að við misstum engan björgunarmann niður í sprungu og t.d. opnaðist sprunga undir snjóbílnum Goða með tvo menn um borð, Þórhall Þorsteinsson og Guðmund Steingrímsson, og mátti litlu muna að þeir færu þarna í næstu sprungu. Það var því ekki annað að gera en grípa til stauranna.

Það þurfti að tryggja Tanna að aftan þannig að bíllinn færi ekki niður ef tankinn losnaði frá sem gat auðveldlega gerst. Hann er aðeins festur með þremur átta millimetra boltum, einum að ofan og tveimur að neðan. Það var ótrúlegt að hann skyldi halda en hann hafði þó líka eitthvert hald í snjó. Við settum blökk og festu að aftan til að tryggja bílinn og svo þurfti að grafa undan honum og koma þverslánum fyrir á sprungunni. Síðan þurfti að spila hann til að framan og upp á þverslárnar.

Tanni hallaði um 15-20 gráður ofan í sprunguna hægra megin og við þurftum að draga hann til að framan, þvert á sprunguna, og jafnframt strekkja á að aftan til þess að halda honum við ísbakkann og til þess að missa hann ekki ofan í. Þetta þurfti allt að passa og þá gátum við dregið hann upp á þverslárnar vinstra megin undir beltinu. Þegar vinstra beltið kom upp að ísveggnum að framan stóð það fast þar í og þurfti því að fara undir beltið og höggva úr veggnum til að liðka fyrir. Ég gerði það sjálfur því ekki vildi ég leggja það á neinn annan að síga í sprunguna til þess arna. Nú var Tanni kominn á slárnar vinstra megin og bara eftir að tjakka hann réttan og stinga slánum undir hægra megin, setja í gang og keyra yfir gapið. Allt gekk þetta og loks var hann laus upp úr hádeginu á páskadag. Þá voru liðnir tveir og hálfur sólarhringur frá því að við stoppuðum. Það var auðvitað alveg stórkostlegt að ná honum upp á fast land, alveg óskemmdum.

Ég var alveg ákveðinn í að halda ferðinni áfram og sagði fólkinu það en benti því á að þeir sem vildu gætu farið heim með björgunarsveitarmönnum. En allir vildu halda áfram þrátt fyrir það sem hafði gerst. Það var blíðuveður og þetta gekk allt alveg ótrúlega vel. Við lukum ferðinni og allir komu heilir heim. En auðvitað hugsar maður ýmislegt eftir svona atburð. Þarna gekk allt upp en það hefði svo margt getað farið úrskeiðis og þá hefðu afleiðingarnar getað orðið skelfilegar. Það mátti svo litlu muna, bæði fyrir okkur og þegar snjóbíllinn Goði var rétt farinn niður. Ég hélt áfram að fara í jöklaferðir en þetta breytti afstöðu minni.


 

Síðast breytt: mivikudagur, 20 jl 2011, 11:56 fh