Eldgos í Kötlu

Úr bókinni Árið 1918 eftir Helga Grímsson.

 

Mýrdalsjökull er fjórði stærsti jökull á Íslandi. Undir jöklinum er gosstöð sem kölluð er Katla. Gosstöðin er sigketill eða askja. Hún er 9-15 km í þvermál, mörg hundruð metra djúp og sneisafull af ís. Álitið er að rúmlega 20 eldgos hafi orðið í Kötlu frá því land byggðist.

Í Kötlugosum kemur aldrei upp hraun heldur gjóska, sem er vikur og aska. Þetta stafar af því að hitinn bræðir jökulinn, vatnið streymir ofan í gossprunguna og leysir hraunið upp í gjósku áður en það kemur upp á yfirborðið. Gosin í Kötlu hafa alltaf verið efnismikil og oft hefur gríðarlegt öskufall orðið við gos. Þeim fylgja mikil þrumuveður. Þá verða risavaxin jökulhlaup með gjósku- sand- og jakaburði sem ryðjast fram á undirlendið og á haf út.

Kötlugosum fylgir því mikil vá og það fengu íbúar í nágrenni Kötlu heldur betur að reyna í október 1918.

Gosið 1918

Snarpur jarðskjálfti fannst í Vík í Mýrdal upp úr hádegi þann 12. október. Í sveitunum austan Mýrdalssands féll lítilsháttar aska og frá jöklinum heyrðust ógnvekjandi drunur og dynkir. Í Borgarfirði og á Snæfellsnesi heyrðust þungar drunur. Gosmökkurinn steig mjög hátt og sást víðs vegar að af landinu. Gerð var tilraun til þess að mæla hæð hans og er áætlað að hann hafi verið yfir 14 kílómetrar og þvermál hans allt að átta kílómetrar. Miklar eldingar fylgdu gosinu og undir kvöldið þegar fór að dimma var ljósagangurinn frá þeim svo mikill að það birti til á dimmum götum Reykjavíkur. Eldingar frá gosinu sáust víða um land, til dæmis á Hólmavík og Vestfjörðum. Í Vestmannaeyjum sáust eldingarnar mjög vel og drunurnar heyrðust greinilega.

Gríðarleg jökulhlaup með miklum jakaburði fylgdu gosinu skömmu eftir að það byrjaði og flæddi fyrsta bylgjan bæði í farveg Múlakvíslar og austur fyrir Hjörleifshöfða. Önnur flóðbylgja, öllu meiri en sú fyrri, kom nokkrum stundum síðar og kaffærði hún allan vestanverðan Mýrdalssand og náði fljótlega umhverfis allan Hjörleifshöfða. Við ströndina var flóðið allt að 12 km breitt. Sandurinn var þakinn stórum jökulbrotum og þétt ísbreiða á sjónum. Undir kvöld kom enn eitt jökulhlaupið, nú undan norðanverðum Kötlujökli, og tók flóðið stefnu til austurs til Hólmsár og Álftavers og lagði austurhluta Mýrdalssands undir sig.  Jökulflóð héldu áfram að koma næstu daga. Stærstu jökulstykkin sem bárust niður á sandana voru á stærð við fjölbýlishús. Þeir sem voru á ferð um Mýrdalssand sluppu naumlega undan flóðinu og þótti furðu sæta að ekki varð manntjón.

Í Vík var verið að vinna við þrjá vélbáta frá Vestmannaeyjum og flutningabátinn Skaftfelling. Þegar menn urðu varir við hlaupið var því hætt þar sem búist var við straumköstum og flóðbylgjum í sjónum. Upp úr kl. 17 var komin mikill straumur í sjóinn og sogaðist hann frá ströndinni svo að sást í sker og kletta sem menn höfðu aldrei séð áður. Menn höfðu hraðar hendur og bátarnir létu úr höfn. Skall hurð nærri hælum því fyrsta flóðaldan kom rétt í kjölfar seinasta bátsins. Um kvöldið komu miklar flóðöldur sem skullu af fullu afli á ströndinni við Reynisfjall og fóru hærra en hæstu brimöldur. Einnig var ókyrrð í höfninni í Vestmannaeyjum vegna flóðöldu frá jökulhlaupinu.

Gosinu fylgdi mikið öskufall. Vindátt var þannig í fyrstu að askan dreifðist mest vestur á bóginn. Í Reykjavík var askan svo þykk að sporrækt var. Síðari hluta dags var erfitt að greina Álftanes úr bænum og fjöll hurfu í sortann. Í Hafnarfirði var einnig mikið öskufall og urðu menn þar kolbrúnir eftir nokkra útiveru. víða á Suðurlandi dimmdi svo að kveikja þurfti ljós í húsum um miðjan dag. Næsta dag féll aska á Akureyri, í Mývatnssveit og á Hornafirði. Beitarland víða um land skemmdist en þó einkum í nágrenni gosstöðvarinnar.

Heldur hægði á gosinu 20. október en það færðist aftur í aukana tveim dögum síðar. Kolsvarta öskustróka bar við himin og þeim fylgdu öflugir jarðskjálftar, þrumur og eldingar.

Þann 30. október var suðaustan stormur með miklu öskuregni í Reykjavík. Það dimmdi mjög yfir og erfitt var að vera úti því augu, nef, munnur og eyru fylltust af ryki.

Talið er að gosinu hafi lokið 4. nóvember.

Eftir gosið

Álitið er að á fyrsta degi jökulflóðanna hafi strandlínan færst út um allt að fjóra kílómetra þar sem hún náði lengst út og landið stækkað um 24 – 30 ferkílómetra. Þar sem togarar höfðu verið að veiðum var eftir hlaupið svartur sandur. Þessi hamfarahlaup breyttu suðurströndinni varanlega þar sem nýr landauki varð til: Kötlutangi. Þetta breytti landafræðinni því að nú varð til nýr syðsti oddi Íslands, en fyrir gosið hafði Dyrhólaey verið syðsti oddinn. Síðan hefur ágangur sjávar stytt Kötlutanga og Dyrhólaey tekið við hlutverkinu á ný.

Mýrdalssandur tók gríðarlegum breytingum vegna jökulflóðanna og varð ógreiðfær á eftir. Þó að vatnið fjaraði fljótt út og jakahrannir bærust að mestu á haf út varð mikil jakaurð eftir á sandinum. Þegar hún tók að bráðna urðu hættuleg kviksyndi. En brátt fraus sandurinn, svo að ófærðin minnkaði. Með vorinu, er ísa leysti, var sandurinn illfær á ný og hættulegur öllum sem um hann fóru, bæði mönnum og dýrum.

Eldgosið olli gríðarlega miklum skemmdum á bæjum og jarðeignum en enginn maður slasaðist eða beið bana. Álitið er að 37 hross og mörg hundruð sauðfjár hafi drepist í flóðinu. Sveitirnar lágu undir ösku eftir gosið. Miklar skemmdir urðu í Skaftártungum en einnig á Síðu, í Mýrdal, Álftaveri og Meðallandi. Skaðinn varð bæði vegna flóðanna og öskufalls. Mestar búsifjar urðu á engjum og beitarlandi, bæði heimahögum og upphögum. Allar afréttir sveitarinnar fóru að meira eða minna leyti undir sand og ösku. Margar jarðir lögðust alveg í eyði en á fáeinum jörðum lagðist búskapur tímabundið af.

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:10 eh