Íslenski fáninn

Samantekt: Guðrún Íris Valsdóttir

 

Íslenski fáninn er þjóðfáni Íslands. Það var Matthías Þórðarson, sem síðar varð þjóðminjavörður, sem sýndi Stúdentafélagi Reykjavíkur hugmynd sína að fánanum árið 1906. Fáninn var hvítur kross á bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Litirnir áttu að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Þjóðfáninn var svo opinberlega staðfestur með konungsúrskurði þann 19. júní 1915 en lög um íslenska fánann voru sett þann 17. júní 1944 og voru fyrstu lög sem samþykkt voru á eftir stjórnarskránni.

Þessi fáni var samt ekki sá fyrsti sem Íslendingar höfðu valið sér. Þeir höfðu valið sér bláhvítan fána, bláan feld með hvítum krossi. Rauði liturinn bættist við að beiðni danskra stjórnvalda vegna þess að bláhvítur fáni var þegar í notkun í Grikklandi. Blár fáni með hvítum krossi er þó enn notaður á Íslandi, ber nafnið Hvítbláinn og er fáni Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).

Eins og fyrr segir eru til lög um íslenska fánann. Fánann má nota við öll hátíðleg tækifæri, bæði þau sem tengjast einkalífi fólks og eins eru nokkrir opinberir fánadagar. Þá á að draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins. Þetta eru dagarnir: nýársdagur, föstudagurinn langi (þá skal fáninn dreginn í hálfa stöng), páskadagur, sumardagurinn fyrsti, 1. maí (verkalýðsdagurinn), hvítasunnudagur, sjómannadagur, 17. júní (þjóðhátíðardagurinn), 16. nóvember (dagur íslenskrar tungu), 1. desember (fullveldisdagurinn), jóladagur og fæðingadagur forseta Íslands.

Stærð fánans skiptir máli. Hlutfallið milli breiddar og lengdar fánans á að vera 18:25. Breidd hvítu randarinnar á að vera 2/9 af breidd fánans og breidd rauðu randarinnar á að vera 1/9 af breidd fánans. Bláu reitirnir eru rétthyrndir ferhyrningar, reitirnir sem eru nær stönginni eru jafnhliða en reitirnir sem eru fjær stönginni eru jafnbreiðir þeim en helmingi lengri.

Fána á ekki að draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og hann á ekki að vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.

Á sorgarstundum er fáni dreginn í hálfa stöng. Það er gert þannig að fyrst er hann dreginn að hún og síðan felldur, svo að 1/3 stangarinnar sé fyrir ofan efri jaðar fánans. Við jarðarför eða sorgarathöfn skal fáninn dreginn að hún þegar athöfninni er lokið og skal fáninn vera uppi þar til fánatíma lýkur.

Ef íslenski fáninn er með öðrum þjóðfánum í fánaröð á hann vera lengst til vinstri séð frá áhorfendum. Ef þjóðfánum er hvirfilraðað á sá íslenski að vera í miðju. Það er ekki leyfilegt að raða fánum sveitarfélaga, fyrirtækja eða félaga inn á milli þjóðfána. Þjóðfánar og slíkir fánar þurfa að vera vel aðskildir.

Þegar fáni er dreginn á stöng eða niður skal gæta þess að hann snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf. Það má heldur ekki nota fánann fyrir gólfdúk eða ábreiðu.

Það er ekki sama hvernig gengið er frá íslenska fánanum eftir notkun. Hann skal brotinn í fernt eftir endilöngu og vafinn upp þannig að aðeins blái liturinn snúi út. Ef fáninn hefur blotnað á ekki að brjóta hann saman fyrr en hann hefur þornað.

 

Heimildir:

http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenski_f%C3%A1ninn

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=917

 http://www.forsaetisraduneyti.is/upplysingar/faninn/Notkun_fana/nr/964

http://www.althingi.is/lagas/125b/1944034.html

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:07 eh