Mér eru allir vegir færir

Úr bókinni Vinir í nýju landi. Lífssögur ungra innflytjenda eftir Guðjón Ragnar Jónasson og Nínu V. Magnúsdóttur.

 

Flestir hafa heyrt Póllands getið. Líkt og mörg önnur lönd í austanverðri Evrópu hefur Pólland mátt þola þrengingar á liðnum árum. Stjórn kommúnista var við völd frá stríðslokum árið 1945 og allt til ársins 1990. Undir lok þess tímabils var efnahagsástand í landinu lélegt. Eftir stjórnartíð kommúnista tóku við nýir og lýðræðislegri stjórnarhættir. Erfiðlega gekk þó að reisa efnahaginn við og oft var erfitt að fá vinnu í landinu. Margir Pólverjar kusu að leita sér að vinnu fjarri heimalandinu og allnokkrir fluttu til Íslands. Nú er svo komið að þeir eru stærsti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi.

Ein hinna mörgu Pólverja sem hafa flust búferlum til Íslands er Katarína, fimmtán ára pólsk stúlka, en hún hefur búið á Íslandi í rúm þrjú ár. Okkur lék forvitni á að vita hvernig hún kann við sig hér á landi og þá sérstaklega hvernig land elds og ísa kom henni fyrir sjónir í upphafi. Katarína hefur sterkar skoðanir á veru sinni hér og við gefum henni orðið.

„Hugmyndin um að flytja til Íslands kom frá pabba sem hafði áður búið og unnið nokkra mánuði á Íslandi. Við höfðum aldrei áður flutt milli landa og höfðum áhyggjur af því hvernig líf okkar yrði þegar til Íslands kæmi. Við þekktum heldur enga sem höfðu flust hingað. Við höfðum heyrt um sígauna sem flakka um og eru ekki vinsælir. Það er oft komið illa fram við þá. Við héldum að við gætum átt von á svipaðri meðferð á Íslandi, enda höfðum við heyrt sögur frá pabba um að Íslendingar væru stundum leiðinlegir við Pólverja.

 

 

 

 

Pólland á sér langa og á köflum glæsta sögu þar sem menning og menntun á sér djúpar rætur. Tungumál Pólverja er af slavneskum uppruna. Landið er ríflega þrefalt stærra en Ísland að flatarmáli og íbúar eru rúmar fjörutíu miljónir en á síðustu öldum hafa landamæri Póllands breyst mikið. Á miðri 16. öld var Pólland stærsta ríki Evrópu. Núverandi landamæri eru frá árinu 1945, frá þeim tíma þegar Evrópu var skipt upp í Austur- og Vestur-Evrópu. Stærsta borg landsins, sem jafnframt er höfuðborg þess, er Varsjá. Í landinu eru margar borgir, þeirra þekktust og elst er Kraká. Hún á sér 1000 ára sögu og var eitt sinn höfuðborg Póllands, ein af háborgum vísinda og menningar, enda er óvíða að finna glæsilegri byggingar en í Kraká.  

 

Lent í nýju landi

Þegar til Íslands kom var tekið vel  á móti okkur. Margir voru mjög vingjarnlegir og sögðu okkur frá ferðum sínum til Póllands. Áhyggjur okkar voru því óþarfar.

Í fyrstu leið mér þó ekki vel á Íslandi. Ég þurfti að flytja burt frá vinum mínum og fjölskyldu í Póllandi og þekkti engan nema foreldra mína og litla bróður. Ég fór ekki í skóla fyrstu tvær vikurnar og var mest með mömmu. Pabbi byrjaði strax að vinna í byggingavinnunni  þar sem hann hafði unnið áður. Ég man ekki eftir mörgu frá fyrstu dögunum mínum á Íslandi, þó man ég vel eftir kuldanum. Við komum hingað um miðjan mars og bjuggum rétt við Laugaveginn í Reykjavík. Við gengum mikið um miðbæinn og vorum í mjög hlýjum fötum. Mér fannst fólkið sem við mættum illa klætt. Okkur þótti mjög furðulegt að fæstir voru með húfu og vettlinga eins og við. Mér fannst í rauninni mjög skrýtið að koma til Íslands. Mér leið eins og mér hefði verið hent inn í framandi heim þar sem allt var öðruvísi, fólk talaði ókunnugt tungumál og ég gat ekki fundið út hvað var að gerast í kringum mig. Sem betur fer aðlagaðist ég fljótt þessu nýja umhverfi og nú líður mér vel hér.

Í byrjun fannst mér íslenska vera mjög skrýtið tungumál og ég hélt að ég myndi aldrei læra hana. Ég grét mikið, mig langaði svo að fara aftur til Póllands í gamla skólann minn því mér gekk vel að læra þar. Mér fannst líka íslensku krakkarnir ekki mjög skemmtilegir og strákarnir miklu sætari í Póllandi. Fljótlega eignaðist ég þó vini sem flestir voru erlendir. Fyrsta vinkona mín á Íslandi var pólsk og hún hjálpaði mér að kynnast öðrum erlendum krökkum. Ég á enga íslenska vini ennþá, það má kannski segja að ég eigi íslenska kunningja. Mér finnst íslensku krakkarnir ekki áhugasamir um að kynnast Pólverjum. Þeir láta stundum eins og við séum ekki á staðnum. Það er enginn með leiðindi en samt hefur enginn áhuga á að kynnast okkur betur og verða alvöru vinur. Það er eins og við séum í tveimur aðskildum heimum. Það ræðst enginn á okkur en það vantar alveg tengslin á milli. Þeir einu sem eru með leiðindi við okkur, pólsku krakkana, eru einstaka aðrir erlendir nemendur sem stundum sýna okkur dónaskap.“

Vandræðalegar þagnir

Katarína var spurð að því hvort hún og samlandar hennar í skólanum hefðu orðið fyrir einelti. Hún segist ekki vilja taka svo sterkt til orða en segir þó: „Það er einna helst að sumir kalli okkur orðum eins og þú Pólverji. Sumir íslensku krakkanna koma fram við okkur eins og við eigum ekkert nafn.“ Katarína segir að þetta sé þó ekki algilt og það séu ekki alltaf íslensku krakkarnir sem séu vandinn. Máli sínu til stuðnings nefnir hún góða pólska vinkonu sína sem er tveimur árum eldri. Þessi stelpa eignaðist íslenska vini en sumum pólsku krökkunum líkaði það illa. Þeim fannst eins og hún hefði á einhvern hátt svikið gamla hópinn sinn. „Það er kannski stundum okkur sjálfum að kenna að við náum ekki að kynnast íslenskum krökkum,“ segir Katarína og brosir. Hún segir jafnframt að það séu ekki margar pólskar stelpur á sama aldri og hún í skólanum, og þess vegna séu flestir vinir hennar aðrir erlendir krakkar úr sama árgangi. Hún leggur áherslu á að hana langi mjög mikið til að eignast íslenska vinkonu en það hafi því miður ekki tekist enn.

Katarína talar í dag mjög góða íslensku. Áhugavert er að heyra meira um hvernig henni gekk að læra málið.

„Mér tókst að læra íslensku nokkuð fljótt enda var ég óhrædd við að tala hana. Það hjálpaði mér mikið að ég er ekki feimin.  Núna tala ég pólsku heima og yfirleitt íslensku í skólanum. Ég fór í heimsókn til Póllands í fyrra og mér fannst skrýtið að tala við gamlar vinkonur mínar. Það komu stundum nokkur orð á íslensku. Mér gekk hálf illa að tala við pólsku vinkonurnar mínar og samskipti okkar voru á köflum undarleg. Áður gátum við spjallað um alla hluti, en nú talaði ég eiginlega bara um Ísland og stundum var þögn í margar mínútur. Það var eins og engin okkar vissi hvað ætti að segja. Þrátt fyrir þetta var mjög gaman að fara aftur heim til Póllands og hitta alla gömlu vinina og ættingjana. Ég var eiginlega fegin að komast aftur í íslensku kyrrðina. Mér fannst svo mikil umferð og hávaði í Póllandi. Nú tala ég um að fara heim til Íslands því að mér líður ekki lengur eins og ég eigi heima í Póllandi.“

Ólíkir skólar

Katarína segist vera ánægð í íslenskum skóla. Okkur lék forvitni á að vita hver væri helsti munur á íslenska skólanum hennar og þeim pólska.

„Mér finnst pólski skólinn mjög ólíkur þeim íslenska. Hérna er ekki eins mikill agi og ég er því ekki eins stressuð hér. Ég fæ ekki þá tilfinningu að ég verði að gera hlutina. Ég fæ meira sjálfstæði þó að stundum komi upp ákveðin vandræði vegna þess að íslenska er ekki móðurmál mitt. Mér líkar vel við skólann minn og kennararnir eru vingjarnlegir og opnir.  Þegar ég var í Póllandi fannst mér oft meira bil á milli kennara og nemenda. Hérna finnst mér kennarar hafa jákvætt viðhorf til nemenda, þeir eru oftast opnir og kunna að meta þegar nemendur grínast við þá. Mér fannst það líka skrýtið í byrjun þegar nemendur ávörpuðu kennarana með skírnarnafni. Það væri óhugsandi í Póllandi og pólskir krakkar eru oft í vandræðum með að tala við kennara á þennan óformlega hátt. Þess vegna segja flestir aðeins „kennari“. Ég er ánægð með íslenska skólann minn þó að stundum finnist mér of mikill hávaði í tímum, að minnsta kosti í samanburði við þann pólska.“

Ljóst má vera að ýmsar hindranir hafa mætt Katarínu eftir flutningana til Íslands en það birtir yfir henni þegar talið berst að framtíðinni. Hún er staðráðin í að læra meira og fyrir skömmu fékk hún einkunnir úr lokaprófum tíunda bekkjar.

„Mig langar að verða betri í íslensku til að geta tjáð mig betur og eiga meiri möguleika í íslensku samfélagi. Ég var mikið á bókasafninu að læra fyrir lokaprófin og við vinkonurnar hjálpuðumst að. Þegar ég fékk einkunnir úr prófunum varð ég mjög glöð, því að mér gekk vel. Ég fékk tár í augun. Í framtíðinni langar mig að læra eitthvað tengt listum, ég elska að mála myndir og taka ljósmyndir. Það sem mér finnst best við íslenska skólann er hversu margar listgreinar er hægt að velja. Ég valdi bæði myndmennt og ljósmyndun. Í Póllandi er ekki eins mikil áhersla á listgreinar en við lærum til dæmis meira í stærðfræði. Ég var því komin lengra í stærðfræði en íslensku krakkarnir þegar ég byrjaði í skólanum þó að í byrjun hafi ég stundum átt erfitt með að skilja orðadæmin.

Í dag langar mig ekki að flytja aftur til Póllands, hér vil ég vera og fara í góðan framhaldsskóla. Ég var hrædd um að ég gæti ekki komist inn í góðan skóla vegna þess að ég var bara búin að vera hér í þrjú ár. Ég hélt að ég væri ekki búin að læra nóg til að taka gott próf. Ég fékk góðar einkunnir og ég kemst inn í hvaða skóla sem er. Í dag er ég ánægð með lífið.“

Síðast breytt: mivikudagur, 27 jl 2011, 09:03 eh