Að skipta um dekk

Af síðunni: http://www.wikihow.com/Change-a-Tire

Þýðing: Guðrún Íris Valsdóttir

 

Viltu geta skipt um dekk á bílnum án þess að þurfa að biðja um hjálp? Sem betur fer er sú athöfn að skipta um dekk frekar einföld, en þú gætir orðið skítugur við verkið.

Finndu stöðugan og öruggan stað til þess að vinna. Þú þarft nokkuð hart, beint undirlag og forðastu mjúkan jarðveg og brekkur. Ef þú ert nálægt vegi, t.d úti í vegkanti, reyndu þá að leggja eins langt frá umferðinni og hægt er og kveiktu á aðvörunarljósunum.

Vertu viss um að bíllinn geti ekki runnið af stað. Taktu í handbremsuna og settu bílinn í „park“ ef þú ert á sjálfskiptum bíl. Ef þú ert á beinskiptum bíl þá setur þú í fyrsta gír eða bakkgír. Gott ráð er að setja þungan hlut, svo sem stein, fyrir framan framdekkið, ef þú ert að skipta um afturdekk, og öfugt.

Finndu varadekkið, tjakkinn og felgulykilinn og færðu að sprungna dekkinu. Komdu tjakknum fyrir undir rammanum nálægt dekkinu sem þarf að skipta um.  Vertu viss um að þú setjir tjakkinn undir þann hluta rammans sem er úr stáli/járni. 

Athugaðu! Margir bílar eru með plast á rammanum, og ef þú setur tjakkinn ekki á réttan stað þá getur hann brotið plastið þegar þú ferð að tjakka bílinn upp. Ef þú ert ekki viss um hvar á að staðsetja tjakkinn, lestu þá um það í handbókinni sem fylgir bílnum.

Á flestum fólksbílum, er lítið hak eða hnúður rétt fyrir aftan framdekkið eða fyrir framan afturdekkið þar sem ætlast er til að tjakkurinn sé staðsettur.

Á flestum stórum bílum og gömlum bílum sem hafa ramma er best að staðsetja tjakkinn á bitann sem er rétt fyrir aftan framdekkið eða rétt fyrir framan afturdekkið.

Tjakkaðu tjakkinn upp þar til hann er stöðugur undir bílnum, án þess að hann sé farinn að lyfta bílnum upp. Tjakkurinn ætti nú að vera á góðum stað undir bílnum. Vertu viss um að bíllinn muni lyftast beint upp og niður.

Fjarlægðu hetturnar af rónum og losaðu rærnar með því að snúa rangsælis með felgulyklinum.  Ekki taka þær alveg af, þú átt aðeins að losa þær. Af því þú ert með dekkið enn við jörð gerir það að verkum að þú veist að þú ert að skrúfa rærnar en ekki að snúa dekkinu.

Athugaðu! Notaðu felgulykilinn sem fylgdi með bílum eða staðlaðan kross-felgulykil.  Felgulykillinn gæti verið þannig að það séu mismunandi stærðir af götum á endunum. Vertu viss um að velja rétta stærð. Rétt stærð er sú sem þú getur sett auðveldlega á rærnar en hringlar ekki.  Það getur verið erfitt að losa rærnar til þess að byrja með. Ef þú getur ekki losað þær með handafli getur þú notað fótinn og stigið á felgulykilinn, vertu alveg viss um að þú sért að snúa í rétta átt.

Tjakkaðu nú tjakkinn upp þannig að dekkið lyftist frá jörðinni.  Þú þarft að lyfta dekkinu það hátt að þú getir tekið dekkið af og sett varadekkið á. Um leið og þú lyftir þarftu að vera viss um að bíllinn sé stöðugur. Ef þú kemst að því að bíllinn sé ekki nógu stöðugur skaltu láta tjakkinn síga og laga vandamálið áður en þú lyftir bílnum aftur upp.

Athugaðu! Ef þú tekur eftir því að tjakkurinn lyftir bílnum ekki rétt upp, láttu tjakkinn síga og staðsettu hann upp á nýtt þannig að hann lyftist beint upp. Ef þú tekur eftir því að bíllinn er að renna af stað skaltu nota trjádrumba, stóra steina eða aðra þunga hluti til þess að skorða bílinn af.

Fjarlægðu nú rærnar af boltunum. Snúðu þeim rangsælis þar til þær losna vel. Þegar allar rærnar eru vel lausar skaltu taka þær af.

Fjarlægðu dekkið. Settu dekkið undir bílinn þannig að ef að tjakkurinn gefur sig þá fellur bíllinn ekki alla leið niður heldur aðeins niður á sprungna dekkið, sem kemur vonandi í veg fyrir að einhver slasist. Ef tjakkurinn er á stöðugum stað, þá ættirðu ekki að lenda í neinum vandræðum.

Settu varadekkið á boltana. Settu felguna vel upp á boltana og settu síðan rærnar á.

Athugaðu! Hertu rærnar með höndunum þar til þær eru öruggar á boltunum. Það ætti að vera auðvelt að skrúfa þær í byrjun.  Þá skaltu nota felgulykilinn og herða rærnar eins vel og þú getur. Til þess að vera viss um að dekkið sé rétt fest á, skaltu ekki herða rærnar eina í einu heldur allar jafnt og smám saman. Gott er að fara alltaf sama hringinn aftur og aftur til þess að vera viss um að engin ró gleymist og allar herðist jafn mikið. Ekki nota það mikinn kraft við þetta að tjakkurinn gefi eftir. Þú þarft að herða rærnar aftur þegar dekkið er komið niður á jörðina á ný.

Láttu bílinn síga með því að lækka tjakkinn niður. Ekki taka tjakkinn alveg undan fyrr en þú ert búinn að herða rærnar aftur.

Lækkaðu bílinn alveg niður og taktu tjakkinn undan. Hertu rærnar aftur. Settu hetturnar á rærnar.

Settu dekkið, sem þú tókst undan bílnum, í skottið á bílnum og farðu með það á dekkjaverkstæði til viðgerðar. Settu einnig tjakkinn og felgulykilinn á sinn stað. Ef dekkið er of illa farið til þess að hægt sé að gera við það þarftu að kaupa nýtt dekk. Þú veist aldrei hvenær þú þarft að skipta um dekk næst.


 

Síðast breytt: rijudagur, 26 jl 2011, 04:00 eh