Finnbogi rammi Ásbjarnarson (10. öld)

Úr bókinni Kappar og kvenskörungar eftir Gísla Jónsson

 

Finnbogi var sonur Ásbjarnar dettiáss sonur Eyvindar landnámsmanns á Flateyjardal Loðinssonar önguls er dó í hafi á leið til Íslands. Um ætt Þorgerðar, móður Finnboga, eru menn ekki samsaga og dregið í efa að hún væri systir Þorgeirs Ljósvetningagoða. Þau Ásbjörn og Þorgerður áttu bú á Eyri (Knarrareyri) á Flateyjardal.

Þorgerður var kvenna vænst og skörungur mikill, en Ásbjörn bóndi geðríkur og hefnigjarn. Dóttir hans var gefin Austmanni í óþökk föðurins, en með samþykki Þorgerðar, og heimtaði hann að barn, er hún bar undir belti, væri borið út. Þótt Þorgerður væri skörungur, glúpnaði hún fyrir ofríki bónda síns og hlýddi sárnauðug. Barnið fannst lifandi í urð, og var sveinn. Ólu hann upp hjón, er lítil þóttu fyrir sér, og gáfu sveininum nafnið Urðarköttur og töldu sinn son.

Urðarköttur varð mjög bráðþroska, sterkur og vitur, og líktist um það helst Agli Skalla-Grímssyni. Var hann ekki nema tólf vetra, er hann hálsbraut graðung mikinn og mannýgan.

Kom nú brátt upp hið sanna, að Urðarköttur væri sonur Ásbjarnar og Þorgerðar, og fór hann til þeirra við lítið ástríki föður síns, en þeim mun meira af móður sinni.

Eitt sinn lánaðist Urðarketti að bjarga úr sjávarháska erlendum manni er Finnbogi hét. Gaf sá Urðarketti í þakkar skyni á deyjanda degi nafn sitt. Linnir síðan ekki afrekum hans innan lands og utan, og sjálfur Jón Grikkjakonungur gaf honum auknefnið inn rammi.

Hér heima á Íslandi átti Finnbogi í stórfelldum illdeilum og vígaferlum og bar jafnan hærri hlut. Hans er getið með einni vísu (nr. 14) í Íslendingadrápu Hauks Valdísarsonar, en það er kappatal, líklega ort á 12. öld:

Rauð Finnbogi fríða

Fjölnis glóð í blóði,

hinn er hjálms við runna

hart gekk fram, inn rammi;

og háraddar hræddir

hrings ófáir gingu

fyr þrymsvelli þollar

þeim sárjökuls geima.

Vísan merkir í stuttu máli að Finnbogi hinn rammi hafi gengið hart fram í orustum og roðið sverð í blóði, enda væru ófáir menn hræddir við hann.

Afrekaskrá hans er mikil og fjölskrúðug. Hann glímdi til dæmis við blámann og drap og þreytti sund við bjarndýr. Mátti þar sjá langan leik og stór köf, en svo fór að hann deyddi björninn. Voru önnur afrek eftir þessu.

Finnbogi fluttist vestur að Borg í Víðidal og rataði í fjandskap við afkomendur Ingimundar gamla. Átti hann mikinn og frægan bardaga við Jökul Ingimundarson, en voru skildir, fyrr en til úrslita drægi. Þá byggði hann að Finnbogastöðum í Trékyllisvík. Hann sættist við fyrri óvini og var boðið að koma aftur að Borg, en vildi eigi þiggja. Hann tók kristni, varð sóttdauður og var grafinn að kirkju þeirri er hann hafði látið gera. Hann var tvíkvæntur og urðu afkomendur hans hinir ágætustu menn.

Bergur sonur hans bjó á Finnbogastöðum. Hét hann eftir vini Finnboga, Bergi hinum (hug)rakka.

Síðast breytt: mivikudagur, 14 september 2011, 08:23 eh