Leiðbeiningar til nemenda

 

Tilgangur

Aðferðin hjálpar þér að skilja og muna textann sem þú ert að lesa. Hún hjálpar þér einnig að gera þér grein fyrir aðalatriðum textans.

Lestu textann með áherslum og taktu eftir greinarmerkjum við lesturinn. Það hjálpar þér að ná betri skilningi.

Gögn

Gott er að nota þankasíðuna spurningar og svör og samantektarsíðu. Þú getur prentað þær út eða opnað þær í tölvunni.

Aðferð

  1. Áður en þú byrjar að lesa skalt þú spá fyrir um hvað textinn sé um. Þú getur horft á titilinn, myndirnar, nafn höfundar, lengd og uppsetningu texta til þess að hjálpa þér við þetta. Ef þú ert að vinna í hópi er gott að ræða við aðra hópmeðlimi um þetta atriði.
  2. Spá. Nú skalt þú einbeita þér að fyrstu efnisgreininni. Efnisgrein er textinn sem er á milli greinarskila. Spáðu fyrir um hvað efnisgreinin gæti innihaldið.
  3. Lestur. Lestu efnisgreinina eða þann kafla sem kennarinn hefur sagt þér að lesa.
  4. Skilningur. Hugsaðu um hvort þú skilur öll orð textans og nærð vel samhengi hans. Ef þú skilur ekki einhver orð eða orðasambönd spurðu þá aðra í hópnum þínum eða leitaðu að skýringum í orðabók.
  5. Spurningar. Spurðu einnar eða tveggja „kennaralegra spurninga“ um efni kaflans sem lesinn var. Skrifaðu spurningarnar niður á þankasíðuna spurningar og svör.
  6. Svör. Svaraðu öllum spurningum sem þú og aðrir í hópnum settu fram um efni kaflans. Skrifaðu svörin niður á þankasíðuna spurningar og svör.
  7. Meginatriði. Taktu saman meginefni kaflans. Skrifaðu það á samantektarsíðuna.
  8. Lestu nú næstu efnisgrein og endurtaktu liði 2 til 7. Þetta gerir þú þar til allur textinn hefur verið lesinn og unnið með hann á sama hátt.
  9. Ef þú átt að skila verkefninu til kennarans geturðu gert það núna.
Síðast breytt: laugardagur, 10 september 2011, 02:01 eh
Hlaupa yfir Stikla

Stikla