Leiðbeiningar til kennara

 

Tilgangur

Tilgangur kennsluaðferðarinnar er sá að lesendur velti fyrir sér skilningi sínum á textanum og spái fyrir um framhaldið. Þeir nálgast textann á skipulegan hátt og ná þannig að festa atriði textans betur í minni.

Notkun

Hægt er að nota aðferðina jöfnum höndum á bókmenntatexta og upplýsingatexta.

Gögn

Gott er að nota þankasíðuna spurningar og svör og samantektarsíðu þar sem skrifuð er samantekt hverrar efnisgreinar.

Aðferð

Kennsluaðferðin er oftast unnin í hópum þar sem stjórnandi stýrir vinnu og umræðum. Til þess að byrja með er kennarinn stjórnandinn, en smám saman geta nemendur tekið að sér stjórnina.

  1. Áður en lestur hefst er gott að spá fyrir um innihald textans út frá fyrirsögn, höfundi, lengd, myndum o.s.frv. Spána vinna stjórnandi og lesendur í sameiningu.
  2. Stjórnandi og aðrir hópmeðlimir spá fyrir um þann hluta efnisins sem á að lesa í byrjun. Gott er að spá aðeins fyrir um hvað stendur í næstu efnisgrein eða næsta hluta textans sem á að lesa.
  3. Lesinn er lítill kafli textans, t.d. ein efnisgrein. Misjafnt er hvort einn les upphátt fyrir allan hópinn eða allir lesa í hljóði.
  4. Stjórnandinn spyr aðra hópmeðlimi hvort textinn sé öllum skiljanlegur. Ef til vill þarf að útskýra einstök orð eða orðasambönd. Hópurinn getur hjálpast að við útskýringar eða leitað í orðabók.
  5. Stjórnandinn spyr einnar eða tveggja „kennaralegra spurninga“ um efni kaflans. Mikilvægt er að stjórnandi bendi á að bæði sé hægt að spyrja beinna spurninga um efni textans og spurninga sem krefjast ályktana. Aðrir í hópnum koma með tillögur að öðrum spurningum sem hægt væri að spyrja um kaflann. Fjöldi spurninga í hvert sinn verður að miðast við magn mikilvægra upplýsinga í textabútnum sem lesinn var og einnig lengd textans. Hópurinn finnur svör við spurningunum í sameiningu. Spurningar og svör eru skrifaðar niður á þankasíðuna spurningar og svör.
  6. Stjórnandinn tekur saman meginatriði kaflans. Aðrir í hópnum segja til um hvort þeim finnst eitthvað vanta í samantektina eða ef þeim finnst einhverju ofaukið.
  7. Stjórnandi skráir samantekt efnisgreinarinnar á samantektarsíðu. Einnig er hægt að velja ritara úr hópnum sem sér um skráningar.
  8. Aðferðin er endurtekin að nýju með næstu efnisgrein eða næsta kafla.
Síðast breytt: mivikudagur, 14 september 2011, 08:58 eh
Hlaupa yfir Stikla

Stikla