Um kennsluaðferðina Gagnvirkur lestur

Kennsluaðferðin gagnvirkur lestur (e. reciprocal teaching) var fyrst þróuð og rannsökuð af Palincsar og Brown (1984). Rannsóknir þeirra leiddu í ljós að aðferðin gat bætt lesskilning nemenda um tugi prósenta.

Gagnvirkur lestur snýst um gagnvirkni textans og lesandans. Lesandinn nálgast textann skipulega, spáir fyrir um textann og framhald hans, veltir fyrir sér skilningi sínum á honum, spyr spurninga og tekur saman meginatriði. Allt þetta er gert í smáum skrefum þannig að lesandinn nái að halda utan um hugsun sína og framvindu textans. Mikilvægt er að allir þessir fjórir þættir; spá, skilningur, spurningar og meginatriði séu unnir saman en svolítið misjafnt er í hvaða röð þættirnir eru teknir fyrir. Anna Guðmundsdóttir (2007a) bendir á að það að spá fyrir um framhald texta eða hvað textinn er um, eins og oft er gert áður en lestur hefst, sé nemendum auðveldara en að draga saman meginatriði texta. Rósa Eggertsdóttir (1998) setur hins vegar þættina fram í röðinni; meginatriði, spurningar, skilningur og spá, sem er sama röð og Palincsar og Brown (1984) settu fram. Hér er valið að fara eftir fyrrnefndri röð, þ.e. að byrja á spánni, tala svo um skilning lesenda á textanum eða einstökum orðum og orðasamböndum, spyrja svo spurninga úr textanum og svara þeim og síðan að taka saman aðalatriði textans. Því næst er spáð fyrir um næsta textabút og hann lesinn, en búturinn getur verið ein efnisgrein eða jafnvel lengri texti, allt eftir eðli texta og æfingu lesenda.

Mælt er með því að vinna með gagnvirkan lestur fyrst um sinn í litlum hópum, undir styrkri stjórn kennara, áður en nemendur reyna við aðferðina upp á eigin spýtur. Kennari byrjar á því að stjórna umræðum á meðan nemendur eru að átta sig á ferlinu. Þegar kennari hefur farið nokkrum sinnum í gegnum ferlið geta nemendur tekið við og stjórnað umræðum og svo að lokum geta nemendur unnið á eigin spýtur.

Heimildir:

Anna Guðmundsdóttir. (2007). Lesið til skilnings. Kennarahandbók. Reykjavík: Námsgagnastofnun. Sótt þann 11. nóvember 2010 af http://vefir.nams.is/lesid_til_skilnings/lesidtilskilnings_klb.pdf

Palincsar, A.S. og Brown, A.L. (1984). Reciprocal teaching of comprehension-fostering and monitoring activities. Cognition and instruction, 1(2), 117-175.

Rósa Eggertsdóttir (ritstjóri). (1998). Fluglæsi. Áherslur, stefnumörkun og aðferðir í lestrarkennslu. Akureyri: Skólaþjónusta Eyþings.

Síðast breytt: rijudagur, 2 gst 2011, 04:54 eh
Hlaupa yfir Stikla

Stikla