Leiðbeiningar til kennara

 

Tilgangur

Tilgangur þessarar lesskilningsaðferðar er þríþættur, í fyrsta lagi þurfa nemendur að hugsa um hvað þeir vita nú þegar um viðfangsefnið sem þeir eru að fara að lesa um. Í öðru lagi þurfa þeir að kortleggja hvað þeir vilja vita um viðfangsefnið. Í þriðja lagi að staðfesta það sem þeir vissu eða breyta skilningi sínum og bæta við hann, ef þeir komust að einhverju nýju um viðfangsefnið eftir að hafa lesið um það. Nemendur þurfa að spyrja sjálfa sig, spá fyrir um og tengja við fyrri vitneskju sína.

Notkun

Þessa lesskilningsaðferð er gott að nota við upplýsingatexta og er notuð áður en lesið er, á meðan lesið er og eftir að lestri er lokið.

Gögn

Gott er að hafa K-V-L þankasíðu sem nemendur fylla út áður en þeir lesa og eftir að lestri er lokið.

Þegar kennari fer í gegn um aðferðina með nemendum er gott að hafa þankasíðuna tiltæka á glæru sem sett er á myndvarpa eða í skjali sem sett er á skjávarpa og hægt er að skrifa inní. Þankasíðuna K-V-L-M er hægt að nota ef verkefnið er þess eðlis að unnið sé nánar með viðfangsefnið. Til dæmis ef nemendur eiga að skrifa hjá sér hvað þeir þurfi að vita meira um viðfangsefnið eða ef þeir þurfa að skrifa niður hverju er ósvarað eftir lestur textans.

Síðuna K-V-L(-M) samantekt efnisatriða er einnig gott að hafa við höndina til þess að nota í lokin.

Aðferð

  1. Eftir að viðfangsefnið hefur verið kynnt og áður en lestur hefst biður kennari nemendur að hugsa um og segja frá öllu því sem þeir vita um viðfangsefnið. Hugmyndir nemenda eru skrifaðar niður í fyrsta dálkinn, sem merktur er K (fyrir kann).
  2. Nemendur eru beðnir um að hugsa um og segja frá öllu sem þeir vilja vita um viðfangsefnið, ef illa gengur að fá hugmyndir frá nemendum er einnig hægt að spyrja hvaða svör þeir haldi að textinn sem þeir eru að fara að lesa, gefi þeim. Hugmyndirnar eru skrifaðar niður í dálk V (vil vita).
  3. Nemendur lesa textann. Þeir mega gjarnan skrifa niður um leið í dálk L (hef lært) öll svör sem þeir fá við spurningum sínum úr dálki V og einnig annað sem þeir komast að um viðfangsefnið við lestur textans.
  4. Kennari og nemendur fara yfir alla dálkana K-V-L og athuga hvort öllum spurningum hefur verið svarað. Kennari og nemendur nota upplýsingar úr öllum dálkunum til þess að draga saman helstu efnisatriði um viðfangsefnið og skrifa á samantektarsíðu.

Hægt er að bæta við fjórða dálkinum,  M (vil vita meira). Þá er notuð K-V-L-M þankasíða. Þar er hægt að skrifa spurningar um hvað nemendur vilja, eða þurfa að vita meira um viðfangsefnið, hvaða spurningum er ósvarað. Því næst er hægt að gera áætlun um hvernig hægt er að nálgast svör við þeim spurningum.

Síðast breytt: laugardagur, 17 september 2011, 01:03 eh
Hlaupa yfir Stikla

Stikla