Þúsund orða virði

Hér á eftir fara hugmyndir að spurningum og hugsanlegum svörum sem hægt er að styðjast við þegar textinn er lesinn.

 • Útskýrir höfundurinn hver þessi „ég“ (sögumaðurinn) er í upphafi sögunnar? Af hverju ætli hann geri það ekki?
 • Af hverju er sögumaðurinn að velta því fyrir sér hvort Júlía muni fyrirgefa honum? Getur verið að höfundurinn vilji strax byggja upp spennu svo við verðum forvitin og lesum áfram?
 • Hvað er höfundurinn að meina með því að hafa sumt letrið skáletrað? Getur verið að það sé bréfið sem sögumaðurinn er að reyna að skrifa til Júlíu?
 • Hvernig lætur höfundur okkur vita (í 3. efnisgrein) að sögumaðurinn sé hlýðinn og vilji ekki neitt vesen? Af hverju gerir höfundur það?
 • Hvað er höfundur að meina með því að segja að það sé vægt til orða tekið að honum hafi brugðið þegar sögumaðurinn sá Júlíu kviknakta? Er það nógu skýrt að honum hafi brugðið mjög mikið?
 • Hvers vegna þarf höfundur að taka það fram að sögumaður hafi aldrei kunnað vel við Rikka? Gæti það verið til þess að við fáum ákveðna samúð með sögumanni?
 • Af hverju heldur þú að höfundur hafi Georg tölvukennara gamlan? Skiptir það máli fyrir söguna? Gæti það verið að þar með sé hann svifaseinn og geti ekki komið í veg fyrir að allir fái að skoða nektarmyndirnar?
 • Hvað er höfundur að meina með því að segja að síminn sé eins og grjóthnullungur í vasa sögumanns? Hann er samt fisléttur. Er þetta rökrétt? Getur verið að höfundur sé þarna að gefa í skyn að síminn virki þungur af því sögumaður sér svo eftir því sem hann hefur gert með símanum sínum?
 • Af hverju segir höfundur að leiðin hafi verið löng þegar sögumaður labbaði með Jóni Páli heim? Getur verið að hann sé að meina að þeim hafi báðum liðið svo illa í návist hvors annars vegna þess að þeir vissu að það sem þeir gerðu var rangt?
 • Hvernig tengjast viðbrögð Jóns Páls því sem áður hefur komið fram um hann þegar sögumaður skammar hann fyrir að hafa sett myndirnar á netið? Passa viðbrögð hans nú við það að hann var að reyna að svindla á mætingu? Er höfundur að reyna að segja okkur eitthvað um hvernig Jón Páll er innrættur?
 • Hvers vegna talar höfundur aftur og aftur um að sögumann langi að tala við Júlíu og játa allt saman? Getur verið að það sé til þess að við vitum að hann sér alveg svakalega mikið eftir þessu?
 • Hvað á höfundur við þegar hann segir að veitt hafi verið verðlaun í hinum ýmsu flokkum? Er það útskýrt nógu vel? Hvernig getur það sem á eftir kemur – að sögumaður hafi verið kosinn herra skólans – hjálpað okkur að álykta?
 • Sögumaður finnur til reiðitilfinningu sem hann hefur aldrei fundið fyrir áður og kýlir Rikka. Af hverju þarf höfundur að taka fram að sögumaður hafi aldrei fundið þessa reiðitilfinningu áður? Getur verið að það sé til þess að segja okkur að hann hafi aldrei kýlt neinn áður?
 • Höfundur lætur skólastjórann koma vel fram við sögumann þó hann hafi kýlt samnemanda sinn, hvers vegna gerir hann það? Getur verið að það tengist því að sögumaður hafi það orð á sér að vera „góður og duglegur strákur“?
 • Hvers vegna lætur höfundur sögumann færa sig undan þegar Júlía ætlar að kyssa hann? Hvaða misskilningi veldur það hjá Júlíu? Af hverju skiptir það máli? Getur verið að höfundur segi þetta til að láta okkur sjá hversu mikil kvöl þetta er fyrir sögumann, hann sem vildi ekkert frekar en að kyssa stelpuna sem hann var skotinn í?
 • Höfundur lætur sögumann eyðileggja símann sinn en honum líður ekkert betur á eftir. Hvers vegna gerir hann það? Getur verið að höfundur vilji segja okkur að ef við ráðumst ekki að vandanum sjálfum þá leysist ekki neitt.
 • Í lokin segir höfundur okkur að sögumaður hafi ekki sent bréfið sem hann hefur samið til Júlíu. Hvað er höfundur að segja okkur með því?
 • Hvers vegna lætur höfundur söguna ekki leysast farsællega? Getur það verið til þess að fá okkur til að hugsa um alvarleika þess að eyðileggja mannorð annarra og hve erfitt er í raun og veru að taka eitthvað til baka sem sett hefur verið á netið þar sem upplýsingar geta verið konar út um allt áður en við fáum við nokkuð ráðið?
Síðast breytt: rijudagur, 2 gst 2011, 10:18 eh