Viðfangsefni

 •  
   
 • 1
  Birta einungis viðfangsefni 1

  Náms- og kennsluefni í lesskilningi

  Nemendur, sem hafa náð góðum tökum á lestri þróa yfirleitt með sér góðar lesskilningsaðferðir. Þeir sem eru með slaka umskráningu þróa síður með sér lesskilningsaðferðir og virðast hafa þá afstöðu til lestrar að lesa orð fremur en að reyna að skilja textann sem heild. Hægt er að efla námsvitund nemenda með því að útskýra lesskilningsaðferðir og sýna nemendum hvernig eigi að nota þær við lestur.

  Þegar kenna á nemendum lesskilning er mikilvægt að þeir læri aðferðirnar það vel að þeir noti þær ósjálfrátt við lestur texta. Þeir læra þá að fylgjast með skilningi sínum og eru færir um að meta hvort þeir hafi skilið textann til fullnustu.  Meginmarkmiðið með kennslu í lesskilningi er að fá nemendur til þess að hugsa á meðan þeir lesa. Með því að kenna nemendum mismunandi aðferðir geta þeir notað þær eftir tegund og tilgangi texta. Lesskilning er hægt að auka með því að kenna nemendum að nota ákveðnar kerfisbundnar aðferðir þegar þeir rekast á orð eða texta sem þeir eiga erfitt með að skilja. Það er þó engin ein leið eða aðferð réttari en önnur. Margir þróa þessar aðferðir smátt og smátt með því að beita námsvitund sinni, en rannsóknir hafa sýnt að kennsla í lesskilningsaðferðum eykur lesskilning. Skilning er hægt að auka með því að kenna aðeins nokkrar lesskilningsaðferðir en betra er að læra nokkrar aðferðir en eina. Mikilvægt er þó að í byrjun sé ein aðferð kynnt í einu. Þegar nemendur hafa náð tökum á einni aðferð er hægt að kynna aðra til sögunnar og þá ætti að taka fram hvernig hægt er að nota þessar aðferðir saman.

  Það hefur reynst vel að kenna lesskilningsaðferðir þannig að kennari byrjar með því að útskýra aðferðina, við tekur sýnikennsla og síðan aðstoðar kennarinn nemendur með notkun aðferðarinnar. Vandaður upplestur og túlkandi, þar sem greinarmerkjasetning er notuð til þess að aðstoða við túlkun texta getur hjálpað til við skilning. Hvetja ætti nemendur til þess að lesa texta upphátt þegar þeir eru að ná tökum á lesskilningsaðferð því það leiðir til betri skilnings. Mikilvægt er í sýnikennslunni að kennarinn hugsi upphátt og sýni þannig nemendum hvernig hugleiðingar hans um textann séu í raun grunnurinn að skilningi hans. Smám saman dregur kennarinn úr aðstoð sinni eftir því sem styrkur og öryggi nemendanna eykst í notkun aðferðarinnar. Veita þarf nemendum tíma til að ræða um textana og hugleiðingar sínar í hópum og pörum. Þó að nemendurnir séu orðnir leiknir í notkun aðferðarinnar ætti kennarinn að veita sérhverjum nemanda tækifæri til að útskýra hvernig hann notaði aðferðina til að skilja textann.

  Í samantekt National Reading Panel (2000) eru taldar upp nokkrar aðferðir sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að eru vænlegar til þess að auka lesskilning. Þetta eru aðferðirnar:

  • skilningsvakt (e. comprehension monitoring)
  • samvinna (e. cooperative learning)
  • nota myndir og myndrit (e. use of graphic and sematic organizers)
  • svara spurningum (e. question answering)
  • að búa til spurningar (e. question generation)
  • söguuppbygging (e. story structure)
  • að taka saman aðalatriði (e. summarization)

  Best þykir að kenna nokkrar lesskilningsaðferðir og nota þær samhliða. Þær aðferðir sem hjálpa nemendum að draga ályktanir eru skilningsvakt og einnig er hægt að búa til og svara spurningum sem krefjast ályktana.

  Þar sem textar eru mjög mismunandi og tilgangur lestrar einnig, þá er gott að hafa vald á nokkrum aðferðum til að grípa til, eftir því sem hentar hverju sinni. Það gefur góða raun að tengja skilningsaðferðirnar við efni sem nemendur eru að læra, til dæmis sögu eða náttúrufræði. Þannig átta nemendur sig betur á tilgangi þess að nota aðferðirnar. Þetta er mikilvægt til þess að nemendurnir nái að tengja aðferðina við eitthvað sem skiptir máli því tilgangurinn er jú að nemendur noti aðferðirnar áfram eftir að stuðningur kennara fer minnkandi.

  Mælt er með því að nemendur vinni saman í litlum hópum þegar þeir eru að reyna að ná tökum á ákveðinni lesskilningsaðferð. Kostirnir eru þeir helstir að allir eru virkir þátttakendur, þeir taka meiri þátt í lengri tíma, þróa betur með sér aðferðirnar, ná betri skilningi en ella og fá auk þess tækifæri til þess að æfa félagsfærni.


 • 2
  Birta einungis viðfangsefni 2

  Uppbygging náms- og kennsluefnisins

  Kennsluefnið sem hér er sett fram miðar að því að kenna nemendum að nota nokkrar valdar lesskilningsaðferðir við mismunandi texta. Aðferðirnar hafa allar verið notaðar um langt skeið af kennurum víðs vegar um heiminn og nokkrar aðferðanna eru til í mörgum mismunandi útgáfum. Hér gefst kennurum og nemendum tækifæri til þess að ná tökum á aðferðunum til þess að geta í framhaldinu notað þær við lestur þess texta sem mætir þeim á lífsins leið, hvort sem er í starfi eða leik. Aðferðirnar eru í raun allar að fást við það sama á svipaðan hátt, aðeins er útfærslu- og áherslumunur á aðferðunum. Kennarar ættu að hafa þetta í huga og benda nemendum sínum á líkindi aðferðanna þegar þeir kenna þær.

  Fyrst er fjallað stuttlega um hverja aðferð, uppruna og tilgang hennar. Því næst er hnitmiðaður texti settur fram í nokkrum skrefum til kennara sem hann getur farið eftir við kennslu. Einnig er settur fram samsvarandi texti í nokkrum skrefum til nemanda sem hann getur farið eftir á meðan hann er að ná tökum á aðferðinni. Meðfylgjandi eru svokallaðar þankasíður og samantektarsíður. Þankasíður (e. thinking sheets) eru síður sem hægt er að nota til þess að skrifa niður hugmyndir, ályktanir og viðbrögð við texta. Þær eru ólíkar eyðufyllingaverkefnum að því leyti að síðurnar bjóða upp á virka hugsun nemenda og ekki er ætlast til þess að á síðurnar séu skrifuð einhver ákveðin svör. Hverri aðferð fylgja nokkrir stuttir textar til æfinga. Textarnir koma úr fjölmörgum áttum, til dæmis úr námsefni, tímaritum, af veraldarvefnum, úr skáldsögum og ævisögum. Textarnir eru bæði upplýsingatextar og bókmenntatextar. Þó að textarnir séu tengdir ákveðinni aðferð er fátt sem mælir á móti því að þeir séu færðir til eftir þörfum og notaðir með öðrum lesskilningsaðferðum en hér er sett fram. Kennarinn verður aðeins að hafa það í huga að aðferðin hæfi textanum.

  Þegar kennari velur hvaða lesskilningsaðferð hann bendir nemendum sínum á að nota við lestur er gott fyrir hann að hafa í huga hvort lesskilningsaðferðin hentar betur upplýsingatexta eða bókmenntatexta. Flestar lesskilningsaðferðir henta báðum textagerðum. Í kennsluefninu er tekið fram undir liðnum notkun hvort aðferðin hentar báðum textagerðum eða annarri.

  Kennsluefnið er sett fram á vef. Það er gert til þægindaauka fyrir nemendur og kennara. Nemendur sem þurfa að geta hlustað á textana geta sett þá yfir í sína vefþulu, skjótt aðgengi er að orðabókum á netinu og nemendum gefst kostur á að vinna þankasíðurnar og samantektarsíðurnar í tölvu og senda til kennara. Einnig getur kennari eða nemandi prentað út síður og leiðbeiningar, allt eftir þörfum hvers og eins. Hægt er að stækka og minnka letur að vild og þannig ættu allir að geta lesið textana í þeirri stærð sem þeim hentar.


 • 3
  Birta einungis viðfangsefni 3

  Textarnir

  Textarnir sem settir eru hér fram til þess að æfa lesskilningsaðferðirnar eru stuttir og úr ýmsum áttum. Ef að nemendur eiga að vinna vel og af áhuga þá er mikilvægt að þeir séu með texta sem vekja áhuga þeirra og eru áskorun fyrir þá, án þess þó að þeir séu of erfiðir.

  Stór hluti þess texta sem fullorðnir lesa eru stuttir textar á borð við texta í blöðum og tímaritum, handbókum, bæklingum, skýrslum, af neti og þess háttar. Líklegt er að það sama verði upp á teningnum þegar unglingar nútímans verða fullorðnir, þeir munu lesa mest stutta texta. Textarnir sem hér hafa verið valdir eru því allir stuttir en úr ýmsum áttum til þess að kynna nemendum þann fjölbreytta heim sem býr í rituðu efni. Einnig er ástæðan sú að nemendur verða, á sinni námsævi, að geta lesið og skilið fjölmargar tegundir texta. Þegar kennari er með sýnikennslu í lesskilningsaðferð þá eigi kennslan að vera stutt og hnitmiðuð, því eru stuttir textar einstaklega heppilegir auk þess eru styttri textar betri en lengri þegar nemandi þarf að endurlesa.

  Eftirfarandi textar eru spyrtir við ákveðna lesskilningsaðferð til hægðarauka fyrir kennara og nemendur, á meðan þeir eru að ná tökum á lesskilningsaðferðunum. Með því að nota nokkra mismunandi texta við hverja lesskilningsaðferð ætti kennurum og nemendum að vera auðveldara að yfirfæra lesskilningsaðferðirnar yfir á þá texta sem lesa þarf í námi og vonandi er einnig hægt að nota tæknina til þess að glæða áhuga nemenda á yndislestri.


 • 4
  Birta einungis viðfangsefni 4

  Heimildir

  Bergljót Vilhelmína Jónsdóttir. (2010). Eflum lesskilning. Reykjavík: Háskólaprent.

  Blachowich, C. og Ogle, D. (2001). Reading comprehension. Strategies for independent learners. New York: The Guilford Press.

  Cantrell, S.C., Almasi, J.F., Carter, J.C., Rintamaa, M. og Madden, A. (2010) . The impact of a strategy-based intervention on the comprehension and strategy use of struggling adolescent readers. Journal of Educational Psycology,102 (2), 257 – 280.

  Harvey, S. og Goudvis, A. (2007). Strategies that work. Teaching comprehension for understanding and engagement. Portland: Stenhouse Publishers.

  Keys to literacy. (2011). Sótt þann 21. janúar 2011 af http://www.keystoliteracy.com/adolescent/literacy/research-based-comprehension-strategy-instruction.pdf

  McLaughlin, M. og Allen, M.B. (2009). Guided comprehension in grades 3 – 8 (2. útgáfa). Newark: International reading association.

  National Reading Panel. (2000). Sótt þann 10. október 2010 af http://www.nationalreadingpanel.org/publications/subgroups.htm

  Rósa Eggertsdóttir (ritstjóri). (1998). Fluglæsi. Áherslur, stefnumörkun og aðferðir í lestrarkennslu. Akureyri: Skólaþjónusta Eyþings.